Aðstæður starfsfólks til mikillar fyrirmyndar hjá Samherja
Fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands kynntu sér starfsemi hátæknivinnsluhúss Samherja á Dalvík í dag en segja má að húsið hafi verið lokað svo mánuðum skiptir vegna heimsfaraldursins. Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambands Íslands, sem jafnframt er formaður Einingar-Iðju, segir aðstæður starfsfólks í húsinu til mikillar fyrirmyndar. Frá þessu var greint á vef Samherja.is í dag.
Vinnsla hófst í nýja hátæknivinnsluhúsinu í lok júlí á síðasta ári en vegna Covid-19 hefur starfsfólkið þurft að starfa við mjög svo krefjandi aðstæður. Til dæmis fengu engir utanaðkomandi að fara inn í húsið svo mánuðum skiptir.
Langflestir starfsmenn vinnslunnar á Dalvík eru í Einingu-Iðju og það var því við hæfi að fulltrúar stéttarfélagsins og Starfsgreinasambandsins kynntu sér starfsemina við fyrsta tækifæri og það gerðu þeir sem sagt í dag.
Það var Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja sem tók á móti Birni Snæbjörnssyni og Flosa Eiríkssyni framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins.
Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja og Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri á Dalvík leiddu síðan skoðunarferðina um húsið.
Heimild og myndir: Samherji.is