Gönguleiðir

Gönguleiðir frá Dalvíkurbyggð

 Klængshólsdalur / Holárdalur

Stutt en stórbrotin leið úr Skíðadal yfir í Hörgárdal. Gengið er frá Klængshóli í Skíðadal, fram að Holá yfir göngubrú, betra þykir að ganga fram dalinn hægra megin. Leiðin liggur á brattann, á 5 km spöl frá hálsinum og upp undir skarðið hækkar landið úr 400 í 1100 m hæð. Þegar komið er fram fyrir miðjan dal er maður á móts við Dýjafjallshnjúk, 1445 m háan, hæsta hnjúk við utanverðan Eyjafjörð.  Þegar komið er í skarðið, sem er þröngt og í 1185 m hæð blasir við Skriðdalurinn, kenndur við Skriðu í Hörgárdal.  Þessi leið var talsvert mikið farin af Skíðdælingum áður fyrr, og var styðsta leið þeirra til Akureyrar.

Áætlaður göngutími: 8 klst.

 Heljardalsheiði

Leið og vegalengd: Atlastaðir Svarfaðardal – Heljardalsheiði – Kolbeinsdalur – Hálsgróf – Hólar Hjaltadal: 27 km. Mesta hæð: 860 m. Göngutími 9-11 klst.

Rudd jeppaslóð er yfir heiðina  og er hún ófær bílum. Lagt er upp frá Atlastöðum í Svarfaðardal og gengið er undir Hnjótafjallinu. Framundan blasir heiðin við og liðast slóðin upp hlíðina en á vinstri hönd er falleg fossasyrpa í Svarfaðardalsánni. Koma þá í ljós stórar vörður og leifar af símalínunni, en hún var sett í jörð 1938 á svæðinu frá Kambagili að Prestsbrekku handan heiðar. Efst á heiðinni blasir Stóravarða við en um 100 m austan við vörðuna eru hleðslur sem taldar eru af fornu sæluhúsi. Komast má á Hákambaleið sem liggur í Fljót og Ólafsfjörð með því að ganga í norðvestur frá Stóruvörðu og er þá komið á tind yfir Hnjótakverkinni sem nefnist Vörðufjall.

Heljardalurinn blasir þá við. Í vestri stendur fjall upp úr snjónum, Deilir, sem er við botn Deildardals, umvafinn Deildardalsjökli.

Skarðið sunnan Deilis nefnist Afglapaskarð og ef menn á leið á Hákambaleið eða í Svarfaðardal fóru þar lentu þeir niður í Deildardal. Ef menn hins vegar eru á leið á Hákamba úr Heljardal er óþarfi að fara upp að Stóruvörðu heldur er stefnan tekin norðan við Deili.

Gengið er niður Heljardal niður í Kolbeinsdal. Farið er beint niður Heljarbrekkur, framhjá gömlum réttarbrotum á eyrunum og vaða Kolbeinsdalsána, sem oft er mikið vatnsfall. Er þá komið á jeppaveg út Kolbeinsdal framhjá eyðibýlinu Fjalli þar sem nú eru sumarhús, yfir Hálsgróf í Hjaltadal. Gangi menn þessa leið velja þeir annaðhvort veginn til Hóla eða gönguleiðina.

Klaufabrekkur

Þegar gengið er úr Svarfaðardal, yfir á Lágheiði er gengið um Klaufaskarð. Leiðin liggur frá Klaufabrekkum í Svarfaðardal fram Klaufabrekkudal í Klaufaskarð og niður Klaufabrekkudal Ólafsfjarðarmeginn og niður á miðja Lágheiði. Komið er niður þar sem lítið skýli stendur skammt frá veginum yfir Lágheiðina. Leiðin er auðrötuð í bjartviðri en fara þarf varlega í þoku.
Áætluð lengd ferðar: 5 – 6 tímar

Reykjaheiði

Reykjaheiði var annar fjölfarnasti fjallvegur úr Svarfaðardal. Farið er frá skíðaskálanum í Böggvisstaðafjalli, og haldið fram Böggvisstaðadalinn sem heitir Upsadalur handan árinnar. Framarlega á Upsadal gengur lítill þverdalur eða skál inn í fjallið, nefndur Grímudalur. Þar nærri liggur gatan yfir ána og taka þar við brattar brekkur. Gatan liggur þar upp í krákustíg og er leiðin vörðuð allt upp í skarð. Skarðið er í um 1000 m hæð yfir sjó. Úr skarðinu sér niður dalverpi sem nefnist Heiðardalur og áfram niður í botn Ólafsfjarðar. Komið er niður að eyðibýlinu Reykjum sem stendur undir rótum Lágheiðarinnar.

Áætluð lengd ferðar: 7 klst

Grímubrekkur

Grímubrekkur er önnur leið þegar farið er milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar.

Leiðin er ekki erfið og tekur um 3 til 5 tíma eftir gönguhraða. Gengið er upp Upsadal og sveigt upp Grímubrekkur í Grímudal. Þegar staðið er í skarðinu blasir við Kálfsárdalur og einnig sér út Eyjafjörðinn. Á hægri hönd er Einstakafjall 1006m og sunnan þess er Reykjaheiði. Auðvelt er að ganga eggjar til norðurs og er þá komið í Drangaskarð. Leiðin niður í Kálfsárdal er greið og koma menn niður að bænum Kálfsá, innarlega í Ólafsfirði.

Drangar

Að “fara Dranga” var á árum áður fjölfarin leið milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Gönguleiðin er í léttara lagi og er göngutími 3-5 tímar eftir gönguhraða.  Farið er upp frá bænum Karlsá norðan Dalvíkur. Gengið upp Karlsárdal upp í skarð sem er í um 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Þegar staðið er í skarðinu sér til Ólafsfjarðar og í hina áttina niður til Eyjafjarðar. Gengið er niður Burstabrekkudal og þaðan til Ólafsfjarðar.

Áætluð lengd ferðar: 3-5 klst

Skeiðsvatn

Vatnsdalur gengur suður úr Svarfaðardal framanverðum, milli bæjanna Kots og Skeiðs. Þetta er fallegur og grösugur dalur, sem ber nafn sitt af stöðuvatn inni á dalnum en það heitir Skeiðsvatn.  Mikil skál er í fjallsöxlinni austan dalsins í Skeiðsfjalli. Frá Koti er stikuð leið upp að Skeiðsvatni. Sú leið er auðveld og fljótfarin eða um 45 mínútna gangur  upp að Skeiðsvatni. Einnig er hægt að leggja upp frá bænum Skeiði og er sú leið aðeins lengri og þá er fylgt bílslóð sem liggur frá Skeiði og að allt upp að vatninu. Ganga að Skeiðsvatni er skemmtileg og þægileg gönguleið sem ætti að henta flestum, ungum sem öldnum.
Áætluð lengd ferðar: 1-3 klst

Þorvaldsdalur

Þorvaldsdalur á Árskógsströnd er fallegur dalur og vinsælt að ganga eða hlaupa hann enda á milli en dalurinn er opinn í báða enda. Þorvaldsdalur byrjar upp frá Árskógi að norðan og opnast hjá Dagverðartungu í Hörgárdal að sunnan. Gangan hefst við Árskógarskóla og gott að fylgja jeppaslóða sem nær um það bil 5 km inn dalinn.  Dalurinn er um 28 kílómetra langur og með háum fjöllum á beggja vegna og er fólki ráðlagt að hafa Hrafnagilsá sér á hægri hönd og hafa Vatnshlíðarfjall sér á vinstri hönd við gönguna suður dalinn. Þorvaldsdalur er lágur og grösugur að norðan en um vatnaskilin sem eru sunnarlega er hann hrjóstrugur og er þá kominn í um 500m. Hæð. Skemmtileg gönguleið við allra hæfi, göngufólk er þó ráðlagt að vera vel skóað þar sem móar, mýrlendi og læki er að finna á þessari leið.
Áætluð lengd ferðar: u.þ.b 5 klst.