Gönguleiðir

Gönguleiðir frá Dalvíkurbyggð

 Klængshólsdalur / Holárdalur

Stutt en stórbrotin leið úr Skíðadal yfir í Hörgárdal. Gengið er frá Klængshóli í Skíðadal, fram að Holá yfir göngubrú, betra þykir að ganga fram dalinn hægra megin. Leiðin liggur á brattann, á 5 km spöl frá hálsinum og upp undir skarðið hækkar landið úr 400 í 1100 m hæð. Þegar komið er fram fyrir miðjan dal er maður á móts við Dýjafjallshnjúk, 1445 m háan, hæsta hnjúk við utanverðan Eyjafjörð.  Þegar komið er í skarðið, sem er þröngt og í 1185 m hæð blasir við Skriðdalurinn, kenndur við Skriðu í Hörgárdal.  Þessi leið var talsvert mikið farin af Skíðdælingum áður fyrr, og var styðsta leið þeirra til Akureyrar.

Áætlaður göngutími: 8 klst.

 Heljardalsheiði

Leið og vegalengd: Atlastaðir Svarfaðardal – Heljardalsheiði – Kolbeinsdalur – Hálsgróf – Hólar Hjaltadal: 27 km. Mesta hæð: 860 m. Göngutími 9-11 klst.

Rudd jeppaslóð er yfir heiðina  og er hún ófær bílum. Lagt er upp frá Atlastöðum í Svarfaðardal og gengið er undir Hnjótafjallinu. Framundan blasir heiðin við og liðast slóðin upp hlíðina en á vinstri hönd er falleg fossasyrpa í Svarfaðardalsánni. Koma þá í ljós stórar vörður og leifar af símalínunni, en hún var sett í jörð 1938 á svæðinu frá Kambagili að Prestsbrekku handan heiðar. Efst á heiðinni blasir Stóravarða við en um 100 m austan við vörðuna eru hleðslur sem taldar eru af fornu sæluhúsi. Komast má á Hákambaleið sem liggur í Fljót og Ólafsfjörð með því að ganga í norðvestur frá Stóruvörðu og er þá komið á tind yfir Hnjótakverkinni sem nefnist Vörðufjall.

Heljardalurinn blasir þá við. Í vestri stendur fjall upp úr snjónum, Deilir, sem er við botn Deildardals, umvafinn Deildardalsjökli.

Skarðið sunnan Deilis nefnist Afglapaskarð og ef menn á leið á Hákambaleið eða í Svarfaðardal fóru þar lentu þeir niður í Deildardal. Ef menn hins vegar eru á leið á Hákamba úr Heljardal er óþarfi að fara upp að Stóruvörðu heldur er stefnan tekin norðan við Deili.

Gengið er niður Heljardal niður í Kolbeinsdal. Farið er beint niður Heljarbrekkur, framhjá gömlum réttarbrotum á eyrunum og vaða Kolbeinsdalsána, sem oft er mikið vatnsfall. Er þá komið á jeppaveg út Kolbeinsdal framhjá eyðibýlinu Fjalli þar sem nú eru sumarhús, yfir Hálsgróf í Hjaltadal. Gangi menn þessa leið velja þeir annaðhvort veginn til Hóla eða gönguleiðina.

Klaufabrekkur

Þegar gengið er úr Svarfaðardal, yfir á Lágheiði er gengið um Klaufaskarð. Leiðin liggur frá Klaufabrekkum í Svarfaðardal fram Klaufabrekkudal í Klaufaskarð og niður Klaufabrekkudal Ólafsfjarðarmeginn og niður á miðja Lágheiði. Komið er niður þar sem lítið skýli stendur skammt frá veginum yfir Lágheiðina. Leiðin er auðrötuð í bjartviðri en fara þarf varlega í þoku.
Áætluð lengd ferðar: 5 – 6 tímar

Reykjaheiði

Reykjaheiði var annar fjölfarnasti fjallvegur úr Svarfaðardal. Farið er frá skíðaskálanum í Böggvisstaðafjalli, og haldið fram Böggvisstaðadalinn sem heitir Upsadalur handan árinnar. Framarlega á Upsadal gengur lítill þverdalur eða skál inn í fjallið, nefndur Grímudalur. Þar nærri liggur gatan yfir ána og taka þar við brattar brekkur. Gatan liggur þar upp í krákustíg og er leiðin vörðuð allt upp í skarð. Skarðið er í um 1000 m hæð yfir sjó. Úr skarðinu sér niður dalverpi sem nefnist Heiðardalur og áfram niður í botn Ólafsfjarðar. Komið er niður að eyðibýlinu Reykjum sem stendur undir rótum Lágheiðarinnar.

Áætluð lengd ferðar: 7 klst

Grímubrekkur

Grímubrekkur er önnur leið þegar farið er milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar.

Leiðin er ekki erfið og tekur um 3 til 5 tíma eftir gönguhraða. Gengið er upp Upsadal og sveigt upp Grímubrekkur í Grímudal. Þegar staðið er í skarðinu blasir við Kálfsárdalur og einnig sér út Eyjafjörðinn. Á hægri hönd er Einstakafjall 1006m og sunnan þess er Reykjaheiði. Auðvelt er að ganga eggjar til norðurs og er þá komið í Drangaskarð. Leiðin niður í Kálfsárdal er greið og koma menn niður að bænum Kálfsá, innarlega í Ólafsfirði.

Drangar

Að “fara Dranga” var á árum áður fjölfarin leið milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Gönguleiðin er í léttara lagi og er göngutími 3-5 tímar eftir gönguhraða.  Farið er upp frá bænum Karlsá norðan Dalvíkur. Gengið upp Karlsárdal upp í skarð sem er í um 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Þegar staðið er í skarðinu sér til Ólafsfjarðar og í hina áttina niður til Eyjafjarðar. Gengið er niður Burstabrekkudal og þaðan til Ólafsfjarðar.

Áætluð lengd ferðar: 3-5 klst

Þorvaldsdalur

Þorvaldsdalur á Árskógsströnd er fallegur dalur og vinsælt að ganga eða hlaupa hann enda á milli en dalurinn er opinn í báða enda. Þorvaldsdalur byrjar upp frá Árskógi að norðan og opnast hjá Dagverðartungu í Hörgárdal að sunnan. Gangan hefst við Árskógarskóla og gott að fylgja jeppaslóða sem nær um það bil 5 km inn dalinn.  Dalurinn er um 28 kílómetra langur og með háum fjöllum á beggja vegna og er fólki ráðlagt að hafa Hrafnagilsá sér á hægri hönd og hafa Vatnshlíðarfjall sér á vinstri hönd við gönguna suður dalinn. Þorvaldsdalur er lágur og grösugur að norðan en um vatnaskilin sem eru sunnarlega er hann hrjóstrugur og er þá kominn í um 500m. Hæð. Skemmtileg gönguleið við allra hæfi, göngufólk er þó ráðlagt að vera vel skóað þar sem móar, mýrlendi og læki er að finna á þessari leið.
Áætluð lengd ferðar: u.þ.b 5 klst.