Anna Kolbrún skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi

Anna Kolbrún Árnadóttir alþingismaður, skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.

Byggðastefnan Ísland allt

Ég legg áherslu á mikilvægi þess að innleiða heildarsýn í byggðamálum þar sem jafnrétti allra, óháð búsetu, verður tryggt. Byggðastefnan Ísland allt hefur aldrei verið eins aðkallandi og nú.

Stofnanavæðingu hálendisins hafnað

Miðflokkurinn stendur enn gegn áformum ríkisstjórnarinnar um stofnun hálendisþjóðgarðs á sama tíma og ferðafrelsi landsmanna verður varið.

Heilbrigðiskerfið

Við ætlum að tryggja öllum Íslendingum jafnt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu. Í því skyni verði horfið frá samþjöppunarstefnu í heilbrigðismálum og þjónustan færð nær almenningi um land allt. Núverandi heilbrigðisstofnanir hér í kjördæminu gegna lykilhlutverki svo íbúar geti notið grunnheilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á í heimabyggð.

Eflum tækni- og iðnnám

Menntakerfið þarf að endurspegla þörf þjóðarinnar fyrir aukna verðmætasköpun og framþróun á næstu árum og áratugum. Ég mun beita mér fyrir því að fjármagn verði sérstaklega eyrnamerkt námi í tækni- og iðngreinum og öllum þeim sem vilja gefið tækifæri til að stunda slíkt nám.

Lífeyriskerfið og borgararnir

Einfalda þarf lífeyriskerfið og afnema óskiljanlegar skerðingar. Kerfið þarf að opna aðgengi fólks til þátttöku í samfélaginu, nóg er komið af hindrunum. Það er réttlátt og hagkvæmt fyrir ríkissjóð, lífeyriskerfið og samfélagið allt.

Einföldun regluverks

Miðflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarstaða og samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði bætt með skattalegum hvötum og einfaldara regluverki þar sem ekki eru lagðar sömu kvaðir á litlu fyrirtækin eins og þau stærstu.

Ég óska eftir þínum stuðningi í komandi kosningum til Alþingis.

 

Texti: Aðsend tilkynning