Akureyri

Beint flug frá Akureyri í haust

Ferðaskrifstofa Akureyrar, í samstarfi við bresku ferðaskrifstofuna Superbreak, hefur hafið
sölu á flugferðum beint frá Akureyrarflugvelli til Bretlands.
Áfangastaðirnir eru alls fjórir; London, Manchester, Liverpool og York. Flogið er með breska
flugfélaginu Titan Airways.

Titan Airways var stofnað árið 1988 og hefur aðsetur á London Stansted flugvelli.

Hægt er að bóka flug á ýmsum dagsetningum frá desember 2018 og út mars 2019.
Ferðaskrifstofa Akureyrar býður upp á ýmsar pakkaferðir í tengslum við flugin. Þá hefur ný
heimasíða verið sett á laggirnar þar sem hægt er að skoða ferðamöguleika og bóka ferðir
eða stök flugsæti. Einnig er ekki útilokað að fleiri ferðadagar og fleiri pakkar bætist við þegar
nær dregur.
Nánari upplýsingar um ferðirnar má nálgast á heimasíðunni www.aktravel.is.

Ragnheiður Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Akureyrar segir:
„Við erum búin að vera í samskiptum við Superbreak um þann möguleika að selja flugsæti
frá Akureyri fyrir heimamarkað. Aðrar ferðir sem við bjóðum upp á frá Akureyri núna í haust
eru helgarferðir til Dublin og Róm ásamt þessum ferðum til Bretlands.
Við finnum fyrir mikilli eftirspurn frá heimafólki eftir beinum ferðum frá Akureyri og reynum
að gera okkar besta í að þjónusta markaðinn með það að leiðarljósi að vera samkeppnishæf í
verði.“

Texti: Aðsend Fréttatilkynning frá ferðaskrifstofu Akureyrar.