Berjadagar í Ólafsfirði
Tónlistarhátíðin Berjadagar í Ólafsfirði í Fjallabyggð verður haldin í tuttugasta sinn dagana 16.-19. ágúst með uppskeru aðalbláberja og fjallagrasa. Á hverju kvöldi eru klassískir tónleikar og ýmsir viðburðir eru í boði á daginn. Dagskráin er fyrir alla aldurshópa og ókeypis aðgangur fyrir 18 ára og yngri.
Íslenska sönglagið er afmælisþema Berjadaga 2018 en íslensk sönglög hafa glætt hátíðina lífi allt frá því að leikar hófust. Það er ósvikin tilhlökkun að fá Kristján Jóhannsson, einn okkar helsta óperusöngvara, til að syngja sönglög í Ólafsfjarðarkirkju ásamt Bjarna Frímann Bjarnasyni sem stjórnar hátíðarkvöldi Berjadaga í ár. Ekki síður er fengur í að fá norðlenska tvíeykið, Hund í óskilum, til að fara höndum um íslenska sönglagið í Tjarnarborg.
Afmælishelgin hefst fimmtudagskvöldið 16. ágúst í Ólafsfjarðarkirkju með fjörmikilli dagskrá fiðluleikaranna Páli Palomares og Evu Panitch en með þeim leikur Eva Þyrí Hilmarsdóttir á píanó. Á tónleikunum hljómar hin stóra Chaconna eftir Bach auk einleiksverka eftir Fritz Kreisler og Manuel de Falla og fleiri verka fyrir fiðlu og píanó. Páll og Vera léku heillandi dagskrá í Ríkisútvarpið á aðfangadagskvöld þar sem þau fluttu dúetta. Núna endurtaka þau samleikinn á Berjadögum. Í þetta skiptið er það margslungið tónmál Béla Bartók og sjaldheyrð lög eftir Shostakovich sem þau leika ásamt Evu Þyri.
Föstudagskvöldið 17. ágúst verður hátíð í Ólafsfjarðarkirkju þegar Bjarni Frímann Bjarnason kemur þar fram ásamt Kristjáni Jóhannssyni tenórsöngvara, Ólöfu Sigursveinsdóttur sellóleikara, Eyjólfi Eyjólfssyni tenórsöngvara og Veru Panitch fiðluleikara. Kristján Jóhannsson flytur meðal annars hina frægu aríu „Vesti la giubba“ eftir Leoncavallo og „Gígjuna“ ástælu eftir Sigfús Einarsson. Á tónleikunum hljómar einnig hin fagra „Arpeggione” sónata eftir Schubert í flutningi Ólafar Sigursveinsdóttur og Bjarna Frímanns. Eyjólfur Eyjólfsson tenór syngur ennfremur sjaldheyrð þjóðlög úr ranni Haydn þar sem píanótríó Veru, Ólafar og Bjarna fær að njóta sín. Einn af hápunktum kvöldsins verður vafalaust þegar Bjarni Frímann leikur einleik á slaghörpuna í Ólafsfjarðarkirkju.
Það verður fjör í Menningarhúsinu Tjarnarborg laugardagskvöldið 18. ágúst en þá fer norðlenska tvíeykið, Hundur í óskilum, höndum um íslenska sönglagið. Þetta óborganlega og óútreiknanlega dúó, sem skipað er þeim Hjörleifi Hartarsyni og Eiríki G. Stephensen, gerði íslenskri menningu skil með eftirminnilegum hætti í Borgarleikhúsinu. Nú munu þeir endurtaka leikinn á Berjadögum.
Aðrir viðburðir á hátíðinni fara fram á Kaffi Klöru við Aðalgötu og dvalarheimilinu Hornbrekku en einnig er boðið upp á afmælisgöngu upp Árdalinn þar sem Ólafsfirðingurinn María Bjarney leiðir gesti inn í leyndardóma hinnar töfrandi flóru landsins. Hátíðinni lýkur á sunnudeginum með Berjamessu í Ólafsfjarðarkirkju og Berjabrunch á Kaffi Klöru. Þar leikur listafólkið Marína Ósk Þórólfsdóttir og Mikael Máni Ásmundsson léttan jazz með morgunmatnum.