dalvíkurbyggð

Dalvík gerði jafntefli við KF

Dalvík/Reynir og Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mættust í B-deild Kjarnafæðismótsins í gærkvöldi. Þegar þessi lið mætast þá er alltaf allt lagt í sölurnar og alvöru nágrannaslagur.

Leikurinn sjálfur byrjaði fjörlega og Dalvík komst yfir eftir aðeins 7 mínútur með marki frá Daða Fannari. Aðeins 10 mínútum síðar svaraði KF og jafnaði leikinn, og var það Birkir Freyr sem átti markið. Um fimm mínútum síðar skoraði Dalvík aftur, og var það Daði Fannar með sitt annað mark, staðan orðin 1-2. KF var ekki lengi að svara, því tveimur mínútum síðar var Adam Örn búinn að jafna leikinn í 2-2 og var það einnig staðan í hálfleik.

Bæði lið gerðu eina skiptingu í hálfleik. Liðin skiptust á að sækja í síðari hálfleik og bæði liðin gerðu margar skiptingar. Það var svo á 90. mínútu sem KF komst yfir með marki frá Halldóri Loga, staðan orðin 3-2 og allur viðbótartíminn eftir, sem var ansi langur.

Dalvík/Reynir jafna svo leikinn á 96. mínútu með marki frá Jóni Björgvin, og niðurstaðan var 3-3 í þessum hörku leik.

Dalvík/Reynir er nú með 8 stig eftir 4 leiki og er taplaust, með tvo sigra og tvö jafntefli. Liðið leikur næst við Tindastól, 9. febrúar kl. 16:15.