Dalvík mætti Selfossi
Íslandsmótið í knattspyrnu fór aftur af stað í gær og í dag mættust Dalvík/Reynir og Selfoss á Jáverkvellinum á Selfossi. D/R hafði gert jafntefli í síðasta leik fyrir pásuna og sárvantaði stig í þessum leik. Selfyssingar eru á hinum enda töflunar og í toppbaráttunni, en þéttur pakki er frá miðri deild og upp í efstu sætin.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur og voru komnir í 2-0 eftir 23. mínútur, fyrsta markið kom á 15. mínútu og var það Danijel Majkic sem gerði sitt þriðja mark í deildinni, og aðeins 8 mínútum síðar skoraði Ingvi Rafn Óskarsson og staðan orðin vænleg fyrir heimamenn þótt nóg væri eftir af leiknum.
Staðan var 2-0 í hálfleik en D/R komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og uppskáru strax mark á 50. mínútu, en markið gerði Jón Heiðar Magnússon, hans fyrsta mark í sumar. D/R gerðu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en heimamenn voru sterkir og tryggðu sér sigurinn með marki á 84. mínútu en það var Kenan Turudija sem það gerði eftir góða sókn. Loka staðan 3-1 fyrir Selfoss og Dalvík/Reynir er enn í næst neðsta sæti með 5 stig.
Dalvík/Reynir leika næst gegn Kórdrengjum á Dalvíkurvelli, miðvikudaginn 19. ágúst.