dalvíkurbyggð

Dalvík með sex stiga forskot eftir jafntefli í toppslag

Dalvík/Reynir keppti við lið KFG á Samsungvellinum í Garðabæ í gær. Var þetta leikur í 14. umferð Íslandsmótsins, en núna eru aðeins fjórar umferðir eftir. Dalvík/Reynir vann fyrri leik liðana á heimavelli 2-0 nú í sumar og einnig útileikinn á síðasta tímabili, en KFG vann á Dalvíkurvelli í fyrri leik liðanna í deildinni 2017. KFG er í mikilli baráttu um 2. sæti deildarinnar og hefur reynslumikla fyrrum landsliðsmenn í sínu liði, og var því búist við hörku leik.

Staðan var 0-0 í fyrri hálfleik, en KFG menn náðu sér í þrjú gul spjöld. Gunnar Már kom inn á hjá Dalvík/Reyni strax í síðari hálfleik fyrir Steinar Loga. Á 63. mínútu kom Angantýr Máni inná fyrir Jóhann Örn. Lokaskipting Dalvík kom svo á 83. mínútu þegar Pálmi Heiðmann kom inná fyrir Fannar Daða. Bæði lið náðu sér svo í tvo gul spjöld í síðari hálfleik, en hvorugu liðinu tókst að nýta þau færi sem komu í leiknum, og voru lokatölur 0-0.

Dalvík/Reynir hefur núna 6 stiga forskot þegar 4 leikir eru eftir, og eru 12 stig í pottinum. Dalvík/Reynir leika næst við Einherja á Dalvíkurvelli, miðvikudaginn 22. ágúst kl. 18:30. Einherji hefur tapað öllum sex útileikjum sínum til þessa, en hafa unnið 7 heimaleiki og tapað einum.