dalvíkurbyggð

Dalvík/Reynir gerði markalaust jafntefli

Dalvík/Reynir og Fjarðabyggð mættust í gær á Akureyri í íþróttahúsinu Boganum. Leikurinn var í 9. umferð 2. deild karla í knattspyrnu. Dalvík/Reynir var í 8. sæti fyrir þennan leik og Fjarðabyggð var í 6. sæti, en með sigri gátu bæði lið blandað sér í baráttuna í efri part deildarinnar. Dalvík/Reynir hafði aðeins skorað 10 mörk í fyrstu 8 leikjunum, og fengið á sig 10 mörk. Lið Fjarðabyggðar er byggt upp á erlendum leikmönnum og voru sjö erlendir leikmenn í byrjunarliðinu. Dalvík/Reynir hefur hins vegar reynt að byggja upp lið á heimamönnum og reynt að fá sterka erlenda leikmenn í lykilstöður.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en Jón Björgvin fékk gult spjald strax á 17. mínútu, og var honum skipt útaf í hálfleik fyrir Gunnlaug Baldursson. Þjálfari D/R gerði svo tvöfalda skiptingu á 64. mínútu þegar Rúnar Helgi og Jóhann Örn komu inná fyrir Pálma Heiðmann og Steinar Loga. Þegar um sjö mínútur voru eftir af leiknum var reynsluboltinn Gunnar Már Magnússon settur inn á völlinn fyrir Þröst Jónasson. Á 90. mínútu gerði D/R sína síðustu skiptingu þegar Viktor Daði kom inn á fyrir Kristján Frey og lék hann síðustu mínúturnar í uppbótartímanum.

Hvorugu liðinu tókst að skora í þessum leik og endaði hann með 0-0 jafntefli. Fimmta jafntefli D/R í deildinni í 9 leikjum, og hafa þeir gert flest jafntefli af öllum liðunum.

Dalvík/Reynir færðist upp í 7. sæti með þessu jafntefli og eru með 11 stig eftir 9 umferðir. Liðið hefur enn ekki unnið heimaleik, gert 3 jafntefli í þessum þremur heimaleikjum og aðeins skorað 2 mörk. Liðinu hefur hins vegar gengið vel á útileiknum, unnið tvo, gert tvö jafntefli og tapað tveimur.