Dalvík/Reynir úr leik í Mjólkurbikarnum
Eftir frækinn sigur á móti Þórsurum í Mjólkurbikarnum þá var næsti mótherji Dalvíkur/Reynis KR-ingar. Fyrirfram var búist við mjög erfiðum leik enda KR með sterkt lið í efstu deild en Dalvík/Reynir nýkomið í 2. deildina. Menn leyfðu sér þó að vera áfram bjartsýnir eftir góðan sigur á Þór og gott gengi í vor.
Leikurinn fór fram á Meistaravöllum í Vesturbænum í dag. KR skoraði strax á 5. mínútu og komu ákveðnir til leiks. Á 20. mínútu skoraði KR aftur og voru komnir í 2-0 og þannig var staðan í leikhlé. KR gerði eina skiptingu í leikhlé þegar Óskar Örn kom inná fyrir Kennie Chopart. Á 49. mínútu fengu KR-ingar víti og komust í 3-0. Nokkrum mínútum síðar gerði D/R skiptingu þegar Sveinn Margeir kom inná fyrir Gunnlaug.
Bæði lið gerðu áfram skiptingar um miðjan síðari hálfleik og kom Gunnar Már inná fyrir Pálma á 62. mínútu. KR skoraði svo fjórða mark sitt á 71. mínútu. Á 75. mínútu gerði D/R sína síðustu skiptingu þegar Jóhann Örn kom inná fyrir Borja Laguna.
Á fyrstu mínútu í uppbótartíma gerðu KR-ingar sitt fimmta mark, og kláruðu leikinn 5-0.
KR er því komið áfram í 16 liða úrslit Mjólkurbikarsins og Dalvík/Reynir eru úr leik.