dalvíkurbyggð

Dalvík/Reynir vann ÍR í miklum markaleik

Dalvík/Reynir mætti ÍR í gær á Hertz vellinum í Breiðholtinu. Jafntefli var í báðum deildarleikjum liðanna í fyrra og fór m.a 3-3 í leiknum á Hertz vellinum. ÍR var með einn sigur og eitt tap í fyrstu tveimur leikjum en D/R hafði gert eitt jafntefli og tapað einum.

Viktor Daði skoraði strax á 10. mínútu leiksins og setti tóninn. Heimamenn skoruðu þó aðeins fjórum mínútum síðar og var staðan orðin 1-1. Áki Sölvason skoraði svo á 24. mínútu og kom D/R í 1-2. Á 28. mínútu gerði ÍR sjálfsmark og var D/R komið í góða stöðu 1-3 og þannig var staðan í hálfleik.

ÍR gerði eina skiptingu í hálfleik en það voru gestirnir frá Dalvík sem skoruðu á 53. mínútu með marki frá Angantý Mána, og var staðan orðin ansi þægileg, 1-4, en nóg var eftir af leiktímanum.

Heimamenn fengu svo víti á 58. mínútu og minnkuðu muninn í 2-4. D/R gerðu tvöfalda skiptingu á 63. mínútu til að fá ferska menn inn, en Gunnlaugur Bjarnar og Steinar Logi komu inná fyrir Viktor Daða og Kristján Frey. ÍR gerði í framhaldinu tvöfalda skiptingu en D/R skipti Halldóri inná fyrir Jóhann Örn á 70. mínútu.

ÍR minnkaði svo muninn á 77. mínútu og var komin spenna aftur í leikinn í stöðunni 3-4 og um 13 mínútur eftir auk uppbótartíma. Þjálfari D/R gerði aftur tvöfalda skiptingu á 82. mínútu þegar Gunnar Darri og Snorri Eldjárn komu inná fyrir Áka og Angantýr.

Dalvík/Reynir hélt út og voru lokatölur 3-4 í þessum mikla marka- og baráttuleik.