dalvíkurbyggð

Dalvík/Reynir vann Kára á Akranesi

Dalvík/Reynir heimsótti Kára á Akranesi í gær í 7. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla í knattspyrnu.  Bæði lið voru í neðri hluta deildarinnar fyrir leikinn og voru því þrjú stig dýrmæt fyrir bæði liðin.

Upphaflega átti leikurinn að fara fram á heimavelli Dalvíkur/Reynis en þar sem völlurinn er ekki tilbúinn féllust Káramenn á að spila leikinn á Akranesi.

Á 14. mínútu átti Kári góða sókn og mistókst Kelvin hjá D/R að skalla almennilega frá og rataði boltinn beint á sóknarmann Kára sem komst auðveldlega framhjá Kelvin og átti svo góða sendingu inn í teig og úr varð mark. Staðan 1-0 fyrir Kára í upphafi leiks.

Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Dalvík aukaspyrnu skammt frá hliðarlínu á miðjum vallarhelmingi Kára. D/R fjölmenntu í teiginn og náðu skalla að marki sem fór svo í varnarmann Kára sem skoraði mjög klaufalegt sjálfsmark er hann reyndi tvívegis að gefa boltann til markmanns. Staðan orðin 1-1 eftir sextán mínútur.

Á 22. mínútu áttu heimamenn góða sókn sem endaði með því að Snorri braut á sóknarmanni Kára innan vítateigs og var dæmd vítaspyrna. Lítil snerting en vítaspyrna staðreynd. Andri Júlíusson fyrirliði Kára skoraði örugglega úr spyrnunni en markmaður D/R fór í rétt horn en var ekki nálægt því að verja fasta spyrnuna.

Á 32. mínútu fengu D/R menn aukaspyrnu á góðum stað vinstra megin á vallarhelmingi Kára, og var nú stillt upp í teig heimamanna. Jimenez tók spyrnuna sem var góð og rataði beint til fyrirliðans Snorra sem skoraði með góðu skoti og jafnaði leikinn 2-2 og þannig var staðan í leikhlé.

Á 52. mínútu átti Dalvík/Reynir mjög góða sókn og kom frábær sending inn fyrir vörn Kára frá Jimenez, en Númi Kárason átti gott hlaup í teiginn og skoraði gott mark og kom D/R yfir 2-3.

Fleiri urðu mörkin ekki og var góð barátta í síðari hálfleik hjá D/R sem héldu út og lönduðu dýrmætum sigri. Dalvík/Reynir lyftu sér upp í 6. sæti deildarinnar með þessu sigri og eru nú komnir með 10 stig eftir sjö leiki.

Næsti leikur D/R verður gegn Vestra , laugardaginn 20. júní, og verður leikið á Olísvellinum.