dalvíkurbyggð

Dalvík/Reynir vann nýliðaslaginn

Dalvík/Reynir mætti liði KFG í gær í Boganum á Akureyri í 2. deild karla í knattspyrnu. Liðin voru í 8.-9. sæti deildarinnar fyrir þennan leik og var því mjög mikilvægur fyrir bæði lið til að brjóta sér leið frá fallbaráttunni. KFG vann fyrri viðureignina í vor með 1-0 sigri.

Liðin eru bæði nýliðar í 2. deildinni í ár, en liðin léku saman árin 2018 og 2017 í 3. deildinni og hafa því leikið reglulega gegn hvort öðru síðustu árin. Í fyrra þá vann D/R heimaleikinn 2-0 og gerðu liðin jafntefli á heimavelli KFG. Árið 2017 þá vann D/R útileikinn og KFG vann á Dalvíkurvelli. Fyrirfram var búist við jöfnum leik og sú varð raunin.

D/R tók forystu seint í fyrri hálfleik með marki frá Pálma Heiðmann og var 1-0 yfir í hálfleik. Síðustu 10 mínútur leiksins voru fjörugar, en KFG jafnaði leikinn þegar um 8 mínútur voru eftir af leiknum og var staðan 1-1. D/R strákarnir gáfust ekki upp og skoruðu sigurmarkið aðeins nokkrum mínútum síðar og tryggðu sér þrjú stigin í þessum mikilvæga leik. Númi Kárason gerði gerði síðara markið, en hann hafði komið inná sem varamaður á 70. mínútu.

Dalvík/Reynir skaust tímabundið upp í 4. sæti deildarinnar, en fjórir leikir fara fram í deildinni í dag og gæti sú staða breyst eftir þá leiki.