Jóhann risi
Jóhann Svarfdælingur (einnig nefndur Jóhann risi) (hét fullu nafni Jóhann Kristinn Pétursson) (9. febrúar 1913 – 26. nóvember 1984) var stærsti Íslendingur sem sögur fara af. Við fæðingu vó Jóhann 18 merkur og var hann þriðja barn foreldra sinna af níu systkinum. Jóhann var 2,34 metrar á hæð þegar hann mældist hæstur og vó þá 163 kg.
Jóhann flutti frá Íslandi árið 1935, ferðaðist víða um heim og vann meðal annars við að sýna sig í fjölleikahúsum í Norðurlöndunum. Jóhann festist í Kaupmannahöfn þegar seinni heimsstyrjöld dundi yfir og komst að lokum til Íslands árið 1945. Eftir að hafa ferðast um Ísland við að sýna kvikmyndir, flutti Jóhann til Bandaríkjanna árið 1948 og bjó þar til ársins 1982. Jóhann landaði nokkrum kvikmyndahlutverkum í Bandaríkjunum og lék meðal annars í kvikmynd sem skartaði Gary Busey og Jodie Foster. Þá kom hann fram í eigin persónu í heimildarmynd árið 1981 og þar var hann titlaður hæsti maður heims. Þegar Jóhann kom í síðasta sinn til Íslands, settist hann að á Dalvík og bjó þar til dauðadags. Jóhann lést árið 1984, þá 71 árs að aldri.
Herbergi hefur verið tileinkað Jóhanni á byggðasafninu Hvoli á Dalvík og hefur það meðal annars að geyma hans persónulegu muni.