Kirkjur í Dalvíkurbyggð
Kirkjurnar í Svarfaðardal þykja um margt merkilegar. Fyrir það fyrsta voru þær fjórar talsins sem þykir mikið í ekki stærri byggð. Ein þeirra, Upsakirkja, hefur verið rifin að mestu. Hinar kirkjurnar; Vallakirkja , Urðakirkja og Tjarnarkirkja eru enn uppistandandi og vel við haldið. Þær eru allar byggðar með sama lagi sem ekki er að finna á kirkjum annars staðar. Þetta svarfdælska byggingarlag einkennist af því að kirkju”turninn” er lægri en sjálf kirkjan og gefur það kirkjunum sérstakt yfirbragð. Vallakirkja var elst þessara kirkna, byggð árið 1861. Árið 1996 stóðu yfir gagngerar endurbætur á Vallakirkju. Var því verki að mestu lokið og búið að koma flestum kirkjumunum fyrir á sínum stað. Að kveldi fyrsta nóvember kviknaði í kirkjunni og brann hún til kaldra kola. Margir töldu að með því væri lokið sögu Valla sem kirkjustaðar. Sóknarbörn í Vallasókn voru þó ekki af baki dottin. Tókst með þrautseigju að safna fé til endurbyggingar kirkjunnar. Var hún síðan endurbyggð nákvæmlega eins og eldri kirkjan og vígð árið 2000.