Fæðingarsögur feðra

Parið Gréta María Birgisdóttir ljósmóðir og Ísak Hilmarsson eru þessi misserin að safna fæðingarsögum feðra. Þau halda utan um verkefnið á facebook síðu sinni ,,Fæðingarsögur feðra”. Verkefnið gengur út á að fá feður til þess að ræða um sína upplifun og þátttöku í fæðingum barna þeirra. Þau vilja fá sem flesta til þess að ræða þetta málefni og velta fyrir sér hlutverki og sýn feðra í fæðingarferlinu.
Þau hvetja alla feður til þess að skrifa sína fæðingarsögu niður og senda þeim. Það má hafa samband við þau í gegnum facebook síðuna eða á netfangið faedingarsogurfedra@gmail.com
Gréta María og Ísak byrjuðu með verkefnið á síðasta ári, á feðradaginn þann 10. nóvember. Aðspurð segja þau að viðbrögðin við verkefninu hafi verið virkilega góð frá fyrsta degi. ,,Við fengum fyrstu sögurnar inn í verkefnið á fyrsta sólarhringnum sem var ótrúlega ánægjulegt. Síðan hafa sögurnar komið inn jafnt og þétt.”
Sögurnar ætla þau að gefa nafnlausar út í bók til þess að gera þær aðgengilegar fyrir sem flesta. ,,Hugsunin er að hafa sögurnar nafnlausar í bókinni en birta með hverri sögu, fæðingarár föður og barns, sem og fæðingarstað. Þannig fær lesandinn meiri tilfinningu fyrir aðstæðum” segir Ísak.
Að lokum vilja þau koma á framfæri þökkum fyrir góð viðbrögð og hvetja alla lesendur til þess að ræða fæðingarsögur feðra í kringum sig.
Hér er slóðin á síðuna www.facebook.com/Faedingarsogurfedra/
og slóðin á instagram síðuna www.instagram.com/faedingarsogur_fedra/