dalvíkurbyggð

Flokka rusl og dósir á Fiskideginum mikla

Undanfarið hafa stjórnendur Fiskidagsins Mikla unnið að því að skipuleggja flokkun á rusli sem fellur til á fjölskylduhátíðinni Fiskidagurinn Mikli.  Í ár verður flokkunarverkefninu sem hófst í fyrra haldið áfram. Verkefnið er í samvinnu fjögurra aðila, Samáls samtaka álframleiðenda, Sæplasts, Gámaþjónustu Norðurlands og Fiskidagsins Mikla.

Stefnt er að því að flokka álpappír, plast og almennt sorp ásamt því að dósir og plastflöskur eru flokkaðar af Björgunarsveitinni á Dalvík og rennur ágóðinn af þeirri söfnun óskiptur til sveitarinnar. Stjórnendur Fiskidagsins mikla hvetja alla til að flokka rétt og minna gesti hátíðarinnar á að setja allar dósir og flöskur í sérstaka dalla björgunarsveitarinnar.

Sæplast setur upp litakerfi og merkingar á Sæplastkör sem verða víða á hátíðarsvæðinu og er vonast til þess að gestir kynni sér merkingar og leggi verkefninu lið.

Gámaþjónusta Norðurlands sér um að taka það sem flokkað er og kemur á rétta staði. Samál tekur síðan allan álpappír og endurvinnur.

Heimild: fiskidagurinnmikli.is