Framkvæmdir hafnar við áningastað við Hrísatjörn

Nú eru framkvæmdir hafnar við gerð áningastaðar við Hrísatjörn í Friðlandi Svarfdæla en í marsmánuði 2018 fékk Dalvíkurbyggð úthlutað 45.391.400.- kr. styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir verkefnið. Dalvíkurbyggð greinir frá þessu á vef sínum.

Áningastaðurinn er hugsaður sem hluti af þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað í Friðlandi Svarfdæla en nú þegar hafa verið byggðir upp göngustígar með upplýsingaskiltum, brýr og fuglaskoðunarhús. Áningastaðurinn verður sem fyrr segir staðsettur við Hrísatjörn en markmiðið með uppbyggingu hans er að auka aðgengi ferðamanna að þessu fuglaskoðunarsvæði. Þá verður á svæðinu bílastæði, kort af sveitarfélaginu með helstu kennileitum auk þess sem þar verður aðgangur að salerni en það verður hið eina við þjóðveginn á milli Akureyrar og Siglufjarðar. Sérstaklega verður hugað að aðgengi fyrir fatlaða og gert ráð fyrir að gestir geti notað áningastaðinn til fuglaskoðunar úr hjólastólum.

Sérstök stjórnunar- og verndaráætlun er í gildi fyrir Friðland Svarfdæla og er þessi framkvæmd hluti af henni. Þannig er áningastaðurinn hugsaður til verndar á svæðinu en með því að gera aðgengi að því betra kemur það í veg fyrir, til dæmis, að ferðamenn leggi bílum sínum út í vegköntum til þess að taka myndir og skoða fuglalíf. Þá verður öll hönnun og efnisval í samræmi við reglur um framkvæmdir í Friðlandi Svarfdæla og tekur mið af vistvænni hönnun.

Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki að mestu leyti á þessu ári. Framkvæmdirnar eru unnar í samráði við Vegagerðina og Friðlandsnefnd Friðlands Svarfdæla.

Mynd og heimild: dalvikurbyggd.is