Góðverkadagur Dalvíkurskóla heppnaðist vel
Góðverkadagur Dalvíkurskóla var í dag og hefur hann fest sig í sessi sem ein af aðventuhefðum skólans. Nemendur fóru um bæinn og breiddu út kærleika og gleði með ýmsum hætti. Yngsti hópurinn í 1. og 2. bekk fór um og söng jólalög fyrir vegfarendur, 3. og 4. bekkur dreifði miðum með fallegum orðum og settu inn um bréfalúgur hjá fólki og gáfu jólaknús. 5. bekkur fór á leikskólann og aðstoðaði þar við ýmis verk og nemendur 6. bekkjar dreifðust á nokkra sveitabæi og hjálpuðu til við verkin. Dalvíkurskóli greind fyrst frá þessu á vef sínum.
Nemendur unglingastigs völdu sér verkefni og þar var ýmislegt í boði. Haft var samband við fyrirtæki með góðum fyrirvara og þeim boðin hjálp. Kjörbúðin, Húsasmiðjan, Íþróttamiðstöðin, áhaldahús bæjarins, veitingastaðir, bókasafnið, hesthúsið í Hringsholti, Árskógarskóli, Olís o.fl. fengu aðstoð í dag. Einnig var haft samband við nokkra eldri borgara og öryrkja og fóru nemendur í heimsókn þangað og unnu þar ýmis verk, t.d. moka snjó eða dreifa sandi, baka smákökur, skreyta, þrífa eða bara spila og spjalla við íbúana.
Nemendur af unglingastigi fóru einnig á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Dalbæ og aðstoðuðu þar við jólaskreytingar, laufabrauðsútskurð og ýmislegt annað sem skipulagt var af starfsfólki.