Annað

Hlutabótaleiðin framlengd til 31. maí 2021

Réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, hlutabótaleiðin, hefur verið framlengdur og gildir nú til og með 31. maí 2021.

Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar geta einstaklingar sem verið hafa í fullu starfi farið niður í allt að 50% starfshlutfall og átt rétt á atvinnuleysisbótum samhliða því starfshlutfalli.

Þá munu atvinnuleitendur fá greidd 6% af grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni til og með 31. desember 2021 en áður gilti úrræðið til 31. desember 2020. Áætlaður heildarkostnaður ríkissjóðs vegna breytinganna er 6,7 milljarðar kr. Þar af fara 6 milljarðar króna í framlengingu á hlutabótaleiðinni og 700 milljónir króna í framlengingu á hækkun á greiðslum til atvinnuleitenda vegna barna.