dalvíkurbyggð

Hollvinasamtök stofnuð fyrir Dalbæ á 40 ára afmælinu

Í gær sunnudaginn 13. október var haldið upp á 40 ára afmæli Dalbæjar í Dalvíkurbyggð en heimilið tók til starfa þann 1. júlí 1979 en var ekki formlega vígt fyrr en 12. janúar 1980. Stofnendur voru Dalvík og Svarfaðardalshreppur, en síðar bættist Árskógshreppur við. Þessum áfanga var því fagnað með hátíðarhöldum fyrir heimilisfólk, starfsmenn og góða gesti.

Við þetta tilefni voru svo kynnt til sögunnar Hollvinasamtök Dalbæjar en tilgangur þessara nýju samtaka er að styðja við Dvalarheimilið Dalbæ með framlögum til tækjakaupa og ýmiss konar búnaðar. Framlögum í félagið er safnað með félagsgjöldum félagsmanna og er árgjaldið 5.000 kr.  Skráning í félagið er á vefsíðu sem stofnuð var í tilefni afmælis Dalbæjar og stofnun Hollvinasamtakanna, www.dalbaer.is

Með stofnun samtakanna er vonast til að hægt verði að stuðla að bættari aðstöðu bæði heimilisfólk og starfsfólks. Vonast er til að sem flestir sjái sér kost á gerast félagar í samtökunum svo að sem flestir geti hjálpast að við að ná settu markmiði. Margar hendur vinna létt verk og margt smátt gerir eitt stórt.

Heimilið er sjálfseignastofnun og er rekið á daggjöldum frá Sjúkratryggingum Íslands. Dalbær hefur einnig sótt styrki til Dalvíkurbyggðar og fengið úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna framkvæmda við húsnæði.

Fyrst var Dalbær eingöngu dvalarheimili, en í maí 1985 fékkst leyfi til reksturs hjúkrunardeildar. Í dag eru 26 hjúkrunarrými, 11 dvalarrými og eitt rými fyrir skammtímainnlagnir, tveir aðilar leigja út herbergi og þá má segja að það búi 40 manns á heimilinu. Að auki hefur heimilið 14 dagdvalarrými. Einnig er félagsstarf fyrir aldraða og öryrkja í Dalvíkurbyggð rekið á Dalbæ yfir vetrartímann. Í dag eru 59 starfsmenn á Dalbæ í u.þ.b. 36 stöðugildum.

Í stjórn samtakanna eru:

Rúna Kristín Sigurðardóttir – formaður
Júlíus Júlíusson – varaformaður
Dagbjört Sigurpálsdóttir – ritari
Kristín Svava Stefánsdóttir – gjaldkeri

Aðrir meðstjórnendur eru:
Arnar Símonarson
Eva Björg Guðmundsdóttir
Helga Mattína Björnsdóttir
séra Oddur Bjarni Þorkelsson
Þorvaldur Eyfjörð Kristjánsson

Mynd: Dalbær.is