Kirkjan í Grímsey brann til kaldra kola

Það hefur ekki farið fram hjá landsmönnum að Miðgarðakirkja í Grímsey brann síðastliðna nótt til kaldra grunna. Elds varð vart um miðnætti og þegar komið var á staðinn varð strax ljóst að engum vörnum varð við komið.

Kirkjan var Grímseyingum einkar kær og byggðin nyrsta er harmi slegin. Miðgarðakirkja var byggð 1867 og endurbætt síðar í tvígang, hún stækkuð 1932 og turn settur á. Kirkjan átti marga góða gripi. Skírnarfontur var til dæmis útskorinn af Einari Einarssyni 1958, þá var altaristaflan eftirmynd af kvöldmáltíðarmynd da Vincis, máluð af Arngrími Gíslasyni, málara, 1879. Ljósakrónur, gamlar, voru frá seinni hluta nítjándu aldar og önnur klukknanna frá seinni hluta átjándu aldar.

Miðgarðakirkju var þjónað frá Dalvíkurprestakalli.

Heimild:kirkjan.is