Lokaleikir KF/Dalvíkur á ReyCup – myndir og úrslit dagsins
KF/Dalvík í yngri flokkum luku keppni á alþjóðlega ReyCup mótinu í dag sem haldið er af Þrótti Reykjavík í Laugardalnum. Aðstæður og veður var fínt í dag en margir keppendur orðnir þreyttir eftir mikið leikjaálag. KF/Dalvík hefur ekki haft marga varamenn á þessu móti og eru börn að spila upp um flokk svo hægt sé að manna lið. Þá hafa sum liðin hreinlega verið að lenda á móti of erfiðum andstæðingum í riðlunum og ekki fengið jafna leiki í gegnum mótið. Krakkarnir geta samt verið stolt af frammistöðunni og allir hafa fengið góða leikreynslu frá þessu móti.
Fyrsti leikur dagsins hjá KF/Dalvík var gegn Gróttu kl. 10:00 í morgun en það var 4. flokkur kvenna (2. styrkleiki) sem mættist þar í hörku leik. Grótta vann leikinn naumlega 2-1 þrátt fyrir góða baráttu hjá KF/Dalvík stelpunum.
4. flokkur drengja í 2. styrkleika lék við sameiginlegt lið Tindastóls, Hvatar og Kormáks kl. 11:00 í morgun, og var á brattan að sækja. Stólarnir voru talsvert sterkar og skoruðu glæsileg mörk, eitt úr hornspyrnu, úr vítaspyrnu og skotum fyrir utan teig. Lokatölur voru 5-0 fyrir Tindastól/Hvöt/Kormák.
3. flokkur kvenna lék við Þrótt-2 á Framvellinum í hádeginu og tapaði naumlega 0-1.
3. flokkur karla lék síðdegis við Þrótt-3 á vellinum við TBR höllina og var þar hörku leikur og nokkuð jafn. KF/Dalvík komst yfir 1-0 en Þróttur jafnaði leikinn í síðari hálfleik. KF/Dalvík skoraði sigur markið nokkrum mínútum fyrir leikslok eftir gott spil í gegnum vörn heimamanna. Þróttur sótti stíft í lokin og fór markmaður þeirra fram þegar þeir fengu hornspyrnur og skapaðist oft hætta en markmaður KF/Dalvíkur tók alla bolta sem komu. Lokatölur 2-1 í þessum bráðskemmtilega leik.
4. flokkur kvenna í styrkleikaflokki 1 lék við Völsung á Framvellinum síðdegis í dag. Leikurinn var jafn og endaði 2-2 en eftir vítaspyrnukeppni þá vann Völsungur 13-12.
Myndir dagsins koma frá leik 4. flokk kvenna gegn Gróttu, 4. flokk drengja gegn Tindastól og 3. flokk karla gegn Þrótti.