MTR sló út Borgfirðinga í Gettu betur og mætir Kvennaskólanum

Lið Menntaskólans á Tröllaskaga tryggði sér sæti í annarri umferð spurningakeppni framhaldskólanna, Gettu betur, með 11-7 sigri á liði Menntaskóla Borgarfjarðar í vikunni. Lið MTR skipa Amalía Þórarinsdóttir, Hafsteinn Karlsson og Jón Grétar Guðjónsson. Liðsstjóri er Lárus Ingi Baldursson.

Þann 4. febrúar hefjast svo sjónvarpsútsendingar frá Gettu betur og sjálf úrslitaviðureignin fer fram 18. mars.

Búið er að draga í aðra umferð og mun MTR mæta Kvennaskólanum í Reykjavík, mánudaginn 17. janúar.

Mánudagur 17. jan
Kvennaskólinn Reykjavík – Menntaskólinn á Tröllaskaga
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi – Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra
Menntaskólinn í Reykjavík – Framhaldsskólinn á Húsavík
Tækniskólinn – Fjölbrautaskólinn í Garðabæ

Miðvikudagurinn 19. jan
Verzlunarskóli Íslands – Fjölbrautaskólinn við Ármúla
Verkmenntaskóli Austurlands – Borgarholtsskóli
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti – Fjölbrautaskóli Suðurlands
Menntaskólinn við Hamrahlíð – Menntaskólinn á Egilsstöðum

Gettu betur er spurningakeppni framhaldsskóla á Íslandi, sem Ríkisútvarpið, RÚV, stendur fyrir árlega. Hver framhaldsskóli á Íslandi getur sent eitt lið í keppnina, sem hvert er skipað þremur nemendum við skólann. Undankeppni fer fram í útvarpi, og að henni lokinni halda átta lið áfram í útsláttarkeppni í Sjónvarpinu.

Mynd með frétt frá vef mtr.is, (HHÓ).

Ljósmynd: Bjarni Grétar Magnússon / Dal.is.