dalvíkurbyggð

Nágrannaslagur á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mætast á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 15. september í lokaumferð Íslandsmótsins í 3. deildinni. Dalvík/Reynir hefur þegar tryggt sitt sæti en KFG, KF og Vængir Júpíters eiga allir möguleika að fylgja Dalvíkingum upp í 2. deild. Möguleiki KF er sigur í þessum leik og treysta svo á hagstæð úrslit í KFG og KV ef þeir vilja fylgja Dalvík/Reynir upp um deild. Það verður því mikil spenna í lokaumferðinni og risa nágrannaslagur á Ólafsfjarðarvelli þar sem ekkert verður gefið eftir. Fólk er hvatt til að mæta og styðja við bakið á sínu liði.

Leikurinn hefst kl. 14:00 eins og allir leikir lokaumferðar 3. deildar.

Í svona leik þá skipta fyrri úrslit ekki máli, heldur snýst þetta um dagsformið, leikplan, vilja, baráttu liðsheildarinnar og smá heppni.

Dalvík/Reynir hefur aðeins tapað þremur leikjum í sumar og fengið á sig fæst mörk í deildinni, eða 14 mörk. Þeir hafa því fengið minna en 1 mark á sig að meðaltali í hverjum leik í sumar í deildinni. Bæði liðin hafa unnið 9 leiki í sumar, en KF hefur tapað 7 leikjum, en aðeins einum á heimavelli. KF hefur verið gríðarlega sterkt á heimavelli í sumar og sótt 7 sigra eða 21 stig af 24 mögulegum. Dalvík /Reynir hefur hinsvegar verið sterkir á útivelli og unnið 4 leiki af 8 og tapað aðeins þremur útileikjum.