dalvíkurbyggð

Pistill frá sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar

Nú líður á sumarið sem hefur verið með eindæmum gott veðurfarslega séð. Íslendingar hafa gert víðreist um okkar fagra land og notið náttúruperla okkar í ríkara mæli en undanfarin ár enda lítið um ferðir til útlanda. Í Dalvíkurbyggð hefur verið nokkuð um ferðamenn þótt sannarlega sé það í minna mæli en undanfarin ár. Það hefur verið sérstaklega líflegt á Árskógsströnd og nýjungar í ferðamennskunni þar hafa náð vel til fólks enda hvers konar böð í mikilli sókn á landsvísu.

Framkvæmdir hafa verið miklar í Dalvíkurbyggð, bæði hjá sveitarfélaginu og hjá fólki almennt. Stærstu framkvæmdir sveitarfélagsins voru lokahnykkur á vel heppnuðu leiksvæði og lóð við Dalvíkurskóla, ýmsar götu- og umhverfisbætur og opin svæði lagfærð. Nýr göngustígur var lagður frá Olís að Árgerði, samvinnuverkefni með Vegagerðinni. Einnig lagði Vegagerðin nýtt slitlag á þjóðveginn frá Olís að Klemmunni og var það langþráð yfirlögn og vel þegin. Hitaveitan er að byggja hús undir sín tæki og tól við Sandskeið og fráveitan stendur í framkvæmdum við Dalvíkurhöfn og á Árskógssandi. Veitur hafa endurnýjað brunndælur og girðing á Bakkaeyrum var endurnýjuð. Áfram er unnið í Þorvaldsdal að skoðun á bættu neysluvatni fyrir Árskógsströnd. Verið er að hefja vinnu við sjávarvarnir við Sandskeið og Lækjarbakka á Árskógssandi. Enn eru nóg verkefni framundan og verða í vinnslu fram eftir hausti.

Í sumar voru að störfum hjá sveitarfélaginu fjölmargar vinnandi hendur, í vinnuskólanum, sumarstörfum og átaksverkefnum. Margt lá fyrir enda erfiður vetur að baki og t.a.m. skógreitir í mjög slæmu ástandi. Mikið hefur áunnist en það er alltaf svo að einhverjum finnst skorta á í sínu nærumhverfi og klárlega mun umhverfisverkefnalistinn aldrei tæmast. En í heild lítur byggðalagið okkar einstaklega vel út og hefur fengið góð orð gesta fyrir snyrtimennsku og fallegt yfirbragð.

Með haustinu kemur velkomin rútína. Skólastarf hefst og fólk snýr til baka úr sumarfríi. Þeir sem vinna í þjónustu, leiðsögn og umönnun þurfa áfram að starfa í skugga covid og aðlaga starfsemina að þeim reglum og leiðbeiningum sem þar gilda. Reglum sem eru síbreytilegar eftir því hvernig faraldurinn herjar á landann. Þetta hefur verið krefjandi fyrir starfsfólk sveitarfélagsins og verður það áfram. En starfsfólkið hefur sýnt einstaka þolinmæði og aðlögunarhæfni enda ekkert í stöðunni nema takast á við vandamálið og nálgast verkefnið af staðfestu og jákvæðni.

Það má með sanni segja að undanfarið ár hafi verið erfitt á margan hátt. Snjóþungur vetur með rafmagnsleysi, yfirvofandi verkföll, kjarabarátta og covid ástand. Og þegar allir héldu að nú væri komið nóg hófust jarðhræringar úti fyrir norðurlandi og sér ekki fyrir endann á skjálftahrinunni.

Því er ekki úr vegi að enda þessa síðsumarkveðju á óskum um dásamlegt haust og góðan vetur framundan. Mér finnst að við eigum það öll skilið.

Katrín Sigurjónsdóttir,
sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð,

Texti og mynd: dalvikurbyggd.is