Norðurland

Rýmkun á skólastarfi, háskólar geta hafið staðnám að nýju

Tilslakanir í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra gera háskólum kleift að hefja staðnám að nýju. Reglugerðin tekur gildi 24. febrúar og gildir til og með 30. apríl nk. Mestu breytingarnar felast í afnámi 2 metra reglunnar í öllu skólastarfi og hækkun hámarksfjölda nemenda í framhalds- og háskólum í 150.

„Það gleður mig hversu öflugt íslenska skólakerfið hefur reynst á meðan heimsfaraldur hefur geysað, við erum stolt af skólunum okkar – kennurum, stjórnendum, starfsfólki og vitanlega nemendum sem komist hafa í gegnum erfiða og flókna tíma með góðri samvinnu og seiglu. Það er sérlega ánægjulegt að nú hillir undir að nemendur muni getað lokið þessari önn í staðnámi. Við höldum þó áfram að fara varlega, svo að við getum haldið áfram að uppskera ríkulega,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Helstu breytingar í nýrri reglugerð:

Leikskólar

  • Leikskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum með 1 metra nálægðartakmörkum milli starfsfólks. Sé það ekki unnt ber að nota andlitsgrímur.
  • Ekki skulu vera fleiri en 50 fullorðnir í hverju rými.
  • Foreldrar, aðstandendur og aðrir skulu sýna aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingu og gæta að sóttvörnum. Þeir skulu gæta að minnst 1 metra nálægðartakmörkun jafnt milli sín og gagnvart starfsfólki.
  • Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi leikskóla, svo sem leiksýningar og tónleikar, eru heimilir í skólabyggingum með áðurnefndum fjölda- og nálægðartakmörkunum. Fari hámarksfjöldi fullorðinna yfir 50 gilda reglur um samkomutakmarkanir samkvæmt reglugerð um takmörkun á samkomum.

Grunnskólar

  • Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum með 1 metra nálægðartakmörkum milli starfsfólks. Sé það ekki unnt ber að nota andlitsgrímur.
  • Ekki skulu vera fleiri en 50 starfsmenn í hverju rými. Þetta á einnig við um frístundaheimili, skipulagt æskulýðs- og tómstundastarf, sem og starfsemi í félagsmiðstöðvum.
  • Nemendur eru undanþegnir nálægðartakmörkunum og grímuskyldu. Ekki skulu vera fleiri en 150 nemendur í hverju rými innan dyra.
  • Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi skulu sýna aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingu og gæta að sóttvörnum. Þeir skulu gæta að minnst 1 metra nálægðartakmörkun jafnt milli sín og gagnvart starfsfólki.
  • Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi grunnskóla, svo sem fyrirlestrar, upplestrarkeppnis o.fl. eru heimilir í skólabyggingum með áðurnefndum fjölda- og nálægðartakmörkunum.
  • Fari hámarksfjöldi fullorðinna yfir 50 gilda reglur um samkomutakmarkanir samkvæmt reglugerð um takmörkun á samkomum.

Framhaldsskólar

Skólastarf á framhaldsskólastigi, í lýðskólum, ungmennahúsum og framhaldsfræðslu er heimilt að því tilskildu að nemendur og starfsfólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli og fjöldi nemenda og starfsmanna fari aldrei yfir 150 í hverju rými. Sé ekki unnt að halda 1 metra fjarlægð skulu nemendur og starfsmenn nota andlitsgrímur.

  • Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi framhaldsskóla, svo sem fyrirlestrar, ræðukeppnir o.fl., eru heimilir í skólabyggingum með áðurnefndum fjölda- og nálægðartakmörkunum. Fari hámarksfjöldi yfir 150 gilda reglur um samkomutakmarkanir samkvæmt reglugerð um takmörkun á samkomum.

Háskólar

  • Í öllum byggingum háskóla er skólastarf heimilt að því tilskildu að nemendur og starfsfólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli og fjöldi nemenda og starfsmanna í hverju kennslu- eða lesrými fari ekki yfir 150. Sé ekki unnt að halda 1 metra fjarlægð skulu nemendur og starfsmenn nota andlitsgrímur.
  • Ekki skulu vera fleiri en 50 starfsmenn í hverju rými.
  • Blöndun nemenda og kennara milli hópa er heimil.
  • Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi háskóla eru heimilir í skólabyggingum. Fari hámarksfjöldi fullorðinna yfir 50 gilda reglur um samkomutakmarkanir samkvæmt reglugerð um takmörkun á samkomum.

Yfirlit yfir helstu breytingar.