Svarfdælingar á leið heim

Svarfdælsku gæsirnar Anna og Jónas í Hlað eru báðar komnar til landsins eftir flug frá Orkneyjum. Hjördís Skotvísgæs var enn í Orkneyjum 16. apríl en búast má við að hún fari að drífa sig í kjölfar sveitunga sinna Önnu og Jónasar ef hún er þá ekki lögð af stað. Arnór Þórir Sigfússon birti þennan texta á facebook er hann endurbirtur hér með hans leyfi.
Anna er styrkt af Sýni ehf. og var merkt í Svarfaðardal sumarið 2019 og tók þá við sendi sem nafna hennar hafði borið áður, en sú var skotin á Orkneyjum haustið 2017. Anna gæs eyddi vetrinum aðallega á Mainland Orkney og Shapnisay en veturinn 2019-2020 var hún aftur á móti í Skotlandi, aðallega vestur af Aberdeen. Það er óvenjulegt að grágæsirnar skipti svona um svæði því þessar 25 grágæsir sem merktar hafa verið með sendum hafa flestar verið nokkuð íhaldssamar hvað varðar vetrarstöðvar. Anna er nokkuð klók gæs sem sést á því að á haustin þegar skotveiðitíminn er á Íslandi þá heldur hún sig að mestu frá túnum og ökrum. Hún sækir frekar í svarfdælsku aðalbláberin og annan villigróður í Bæjarfjallinu og Böggvisstaðafjalli, sannkallaða ofurfæðu. Anna lagði af stað til Íslands skömmu eftir miðnættið 14. apríl. Hún kom svo að landi við Flatey á Mýrum um kl. 10 að morgni 15. apríl og var því rúman sólarhring á leiðinni. Hún stoppar tvisvar á hafi úti að því er virðist, fyrst rétt eftir að hún leggur af stað og svo aftur skammt undan landi við suðausturströndina. Þar virðist hún láta reka í um 6 tíma en gæsin Þór gerði þetta einnig, stoppaði undan landi. Kannski var skyggni ekki gott til flugs, gæti hafa verið talsverð úrkoma. Þegar talað er um að Anna hafi stoppað þá ber að hafa það í huga að hún og aðrar merktar gæsir eru eflaust hluti af gæsahópi og geta þeir verið stórir, tugir eða hundruð gæsa. Anna er enn sunnan heiða en líklega fer hún að drífa sig norður á heimaslóðirnar og undirbúa varp
Gassinn Jónas í Hlað er styrktur af Hlað ehf. veiðiverslun og skotfæragerð. Þetta er í raun Jónas þriðji sem ber sendinn en tveir þeir fyrri voru skotnir. Sá fyrri í Orkneyjum með útlendu skoti en sá seinni í Langadal 2019 og var hann skotinn með Patriot skoti frá Hlað að sögn veiðimannsins. Jónas þriðji var svo merktur í Svarfaðardal sumarið 2020. Hann eyddi vetrinum að mestu á Sanday í Orkneyjum. Hann var áhættusæknari en Anna sveitungi hans og sótti meira í tún og akra um haustið en eyddi síðustu vikunum svo í Ólafsfirði áður en hann hélt til Orkneyja. Jónas lagði af stað til Íslands um kl. 4 að morgni 15. apríl og flaug hiklaust til Íslands og því fljótari í förum en Anna. Hann tók land á Papey um 16 tímum seinna og nýtti sér vel sterkan meðbyr. Jónas stoppaði um stund á Papey en fór svo upp á land og hefur dvalið við mynni Berufjarðar. Hann fer líklega að drifa sig norður í Svarfaðardal til að undirbúa varpið.
Hér má fylgjast með ferðum grágæsanna https://gps.verkis.is/gaesir20/ og hér má sjá myndir frá merkingu á Önnu https://www.facebook.com/gunnhild…/posts/10214774232456127
Grágæsamerkingarnar eru á vegum Verkís, verkfræðistofu í samvinnu við WWT og Náttúrufræðistofu Austurlands. Sendarnir eru styrktir af fyrirtækjum og samtökum og er styrktaraðilum þakkaður ómetanlegur stuðningur.
Aðsendur texti: Arnór Þórir Sigfússon.
May be an image of útivist