dalvíkurbyggð

Þrjú víti og þrenna á Dalvíkurvelli

Dalvík/Reynir og Kári mættust í dag á Dalvíkurvelli í 18. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla í knattspyrnu. Kári var með 18 stig og aðeins þremur stigum frá fallsæti fyrir þennan leik, en Dalvík/Reynir var í 5. sæti með 27 stig. Deildin hefur verið jöfn í sumar og hver sigur vegur þungt í þessum síðustu umferðum. D/R vann fyrri leik liðanna í sumar 2-3 í Akraneshöllinni.

Gestirnir mættu sterkir til leiks og fengu víti á 24. mínútu sem Andri Júlíusson skoraði úr og kom þeim í 0-1. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og var því staðan 0-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Þjálfari D/R gerði strax eina skiptingu í hálfleik og kom Alexander Ingi inná fyrir Viktor Daða. Kári skoraði sitt annað mark þegar aðeins 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og kom Kára í 0-2. Á næstu mínútum eftir markið gerði D/R þrjár skiptingar,  Gunnlaugur Bjarnar kom inná fyrir Borja Laguna og Pálmi Heiðmann og Númi Kárason komu inná fyrir Jóhann Örn og Jón Björgvin.

D/R fékk víti á 73. mínútu og skoraði Sveinn Margeir úr vítinu og gaf heimamönnum smá von, leikmenn Kára mótmæltu vítinu og uppskáru þrjú gul spjöld.  Kári fékk svo sitt annað víti á 84. mínútu og gerðu út um leikinn þegar Andri Júlíusson fullkomnaði þrennuna sína í þessum leik. Lokatölur á Dalvíkurvelli 1-3.