Um 220 nemendur í Dalvíkurskóla í vetur

Dalvíkurskóli var formlega settur fimmtudaginn 23. ágúst síðastliðinn. Gísli Bjarnason skólastjóri tók á móti nemendahópum á sal og bauð þau velkomin. Í ræðu skólastjóra kom fram að í vetur verða um 220 nemendur í skólanum og um 50 starfsmenn. Hann lagði áherslu á að nemendur vandi sig í samskiptum og hafi jákvæðni í leik og starfi að leiðarljósi. Einnig kom fram að samkvæmt könnun sem gerð var hjá nemendum hefur einelti minnkað í Dalvíkurskóla, og hvatti nemendur til að vera vakandi og útrýma einelti í skólanum alveg. – Þetta kemur fram á vef Dalvíkurskóla.

Gísli minnti nemendur á hversu nauðsynlegt það sé að hafa metnað í námi og hrósa hvort öðru þegar vel gengur, ekki bara í íþróttum heldur í öllu námi. Einnig að nemendur þurfi að hafa trú á sjálfum sér og sýna þrautseigju í námi.

Hann hvatti alla til að taka vel á móti nýjum nemendum, bæði þeim sem eru að byrja í fyrsta bekk og einnig þeim sem eldri eru og hjálpa þeim að aðlagast í skólanum.