Verkefnið Krílin á skíðin

Bergmenn – Arctic Heli Skiing í samstarfi við Skíðafélag Dalvíkur munu nú í vetur koma á fót verkefninu Krílin á skíðin. Verkefnið gengur út á að bjóða öllum börnum í tveimur elstu árgöngum leikskóla Dalvíkurbyggðar uppá þann möguleika að fara á byrjenda námskeið og æfa skíði sinn fyrsta vetur, með lágmarks tilkostnaði fyrir foreldra. Bergmenn – Arctic Heli Skiing munu lána öllum börnum þann skíðaútbúnað sem til þarf þeim að kostnaðarlausu. Þannig geta allir byrjað sinn skíðaferil á splunkunýjum Völkl skíðum úr Fjallakofanum.

Skíðaíþróttin er eins og allir vita ekki ódýr og vegur þar þyngst kostnaður við útbúnað. Það er von okkar að með þessu léttum við undir með foreldrum og gerum sem flestum kleift að æfa skíði í vetur og til frambúðar! Skíðaíþróttin er ekki bara einstaklega holl og góð hreyfing og útivist fyrir börn, heldur samofin okkar samfélagi hér í Dalvíkurbyggð. Samfélagi þar sem börn geta nú vaxið úr grasi með það að markmiði að ekki bara skíða sér til skemmtunar heldur jafnvel taka sín fyrstu skref í þá átt að gera skíðamennskuna að lífsviðurværi hér í heimabyggð í fjöllunum á Tröllaskaga.

Þetta kemur fram í tilkynningu.