dalvíkurbyggð

Ægir í heimsókn á Dalvíkurvelli

Dalvík/Reynir og Ægir frá Þorlákshöfn mættust á Dalvíkurvelli í gær í 3. umferð 3. deildar karla í knattspyrnu. Bæði lið voru ósigruð eftir fyrstu tvær umferðirnar og voru með 4 stig. Von var á jöfnum og skemmtilegum leik. Liðin mættust síðast árið 2018 en þá vann D/R báða leikina í deildinni. Liðin höfðu mæst alls 11 sinnum frá árinu 2013 í deild og deildarbikar, D/R hafði unnið 5 leiki, 3 voru jafntefli og Ægir hafði unnið 3 leiki.

Markalaust var í fyrri hálfleik en báðum liðunum tókst þó að ná sér í sitthvort gula spjaldið. Snemma í síðari hálfleik náðu gestirnir forystu með marki Cristofer Rolin á 48. mínútu, en hann var að leika sinn fyrsta leik fyrir Ægismenn.

Þjálfari D/R sendi tvo spræka varamenn inná á 70. mínútu og einn á 72. mínútu til að fá ferskar lappir inná og freista þess að jafna leikinn. Jóhann Örn, Númi Kára og Gunnar Darri voru sendir inná. Ekkert gekk að koma boltanum í netið og aftur var skipting hjá D/R og var nú Viktor Daði sendur inná á 86. mínútu.

Jöfnunarmarkið kom svo á 96. mínútu en markið mikilvæga gerði Gunnar Darri sem hafði áður komið inná sem varamaður. Staðan 1-1 og leikurinn nánast búinn. Aðstoðarþjálfari Ægismann fékk svo rautt spjald á 97. mínútu, og þar með lauk leiknum. Niðurstaðan 1-1 jafntefli og er Dalvík/Reynir í 5 .sæti eftir þrjár umferðir með 5 stig.

Jákvæðu fréttirnar eru að liðið hefur enn ekki tapað leik í deildinni.

Dalvík/Reynir leikur næst við Sindra á Hornafirði, laugardaginn 29. maí, en Sindri hefur tapað fyrstu þremur leikjum í deildinni.