Akureyri

Akureyrarbær gerir nýjan samning við Fjölsmiðjuna

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar og Erlingur Kristjánsson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar hafa undirritað nýjan samstarfssamning um þjónustu Fjölsmiðjunnar á Akureyri fyrir árið 2021.

Markmið samningsins er að efla Fjölsmiðjuna í hlutverki sínu sem starfsþjálfunarstaður fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára. Ennfremur að auka tengsl og samvinnu Fjölsmiðjunnar og starfsfólks sveitarfélagsins sem vinnur með ungu fólki.

Fjölsmiðjan veitir ungu atvinnulausu fólki vinnu með það að markmiði að hver einstaklingur njóti sín og verði færari í að takast á við kröfur umhverfisins ýmist á vinnumarkaði eða í námi. Þegar ungmennin eru tilbúin, eru þau studd í vinnu eða skóla. Í Fjölsmiðjunni er rekið mötuneyti, bílaþvottastöð, verslun með notuð húsgögn o.fl. og móttaka á endurvinnslu á tölvum og öðrum raftækjum.

Haldnir verða reglulegir samstarfsfundir starfsmanna Fjölsmiðjunnar og félagsþjónustu Akureyrarbæjar þar sem m.a. verður fjallað um inntöku nýrra einstaklinga í Fjölsmiðjuna og um framgang hvers og eins á vinnustaðnum. Þegar ungmenni sem Akureyrarbær hefur vísað til Fjölsmiðjunnar er undir 18 ára aldri, skal fulltrúi félagsþjónustunnar og/eða barnaverndar sitja í teymi um barnið þar sem staða þess er metin reglulega og ákvarðanir teknar um framhaldið.

Texti: akureyri.is

Mynd: akureyri.is