dalvíkurbyggð

Ársreikningur Dalvíkurbyggðar í fyrri umræðu sveitarstjórnar

Á 982. fundi byggðaráðs þann 15. apríl sl. var ársreikningur Dalvíkurbyggðar 2020 lagður fram. Endurskoðandi sveitarfélagsins fór yfir helstu niðurstöður og forsendur ársreikningins.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var jákvæð sem nam 35,9 millj. kr og rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 7,6 millj.kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.319,5 millj. kr samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A-og B-hluta, en eigið fé A-hluta um 2.483,9 millj. kr. Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 2.511,1 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A- og B-hluta. Þar af námu rekstrartekjur A-hluta 2.124,2 millj. kr. sem skiptast þannig að útsvarið er 49,8%, fasteignaskattur 7,6%, framlög úr Jöfnunarsjóði 28,6% og aðrar tekjur 14%. Stærsta útgjaldaliðnum er varið til greiðslu launa og launatengdra gjalda, alls hjá A- og B-hluta 1.467 millj.kr. eða um 58,4% af tekjum.
Veltufé frá rekstri var kr. 240.799.000 fyrir A- og B-hluta. Veltufjárhlutfall A- og B-hluta var 1,33 og skuldahlutfallið 77%.

Langtímaskuldir við lánastofnanir voru í árslok 2020 kr. 911.071.000 en voru í árslok 2019 kr. 803.368.000. Á árinu 2020 var tekið nýtt lán að upphæð kr. 205.000.000 en ákveðið var að taka lán fyrir allri heimild sveitarstjórnar þar sem kjörin voru afar hagstæð. Afborganir langtímalána fyrir A- og B-hluta voru kr. 112.867.000. Því hækkaði handbært fé um rúmlega 50 milljónir á milli ára og var í árslok rúmlega 260 millj.kr. Þannig er skuldarviðmið A- og B-hluta skv. reglugerð 40,4% sem er töluvert undir skuldarviðmiði sveitarfélaga.

Fjárfestingar ársins 2020 fyrir samstæðuna voru kr. 301.202.000, þessar stærstar:
Hjá Eignasjóði voru framkvæmdir hærri en 20 millj. kr. þessar: Rúmar 40 millj.kr vegna kaupa á Selárlandinu, rúmar 28,5 millj.kr.vegna lóðar Dalvíkurskóla og tæpar 24 millj. kr vegna göngustígs Olís -Árgerði sem var samvinnuverkefni með Vegagerðinni.
Hjá Hitaveitu tæpar 53 millj. kr vegna byggingar á geymsluhúsnæði við Sandskeið.
Hjá Fráveitu rúmar 20 millj. kr vegna Norðurdælustöð á Dalvík og 17,5 millj. kr vegna hreinsistöðvar á Árskógssandi.
Hjá Vatnsveitu 3,6 millj. kr vegna dælubúnaðar á Bakkaeyrum.
Hjá Hafnarsjóði um 8 millj. kr vegna dýpkunar í Dalvíkurhöfn, verkefni með Vegagerðinni og 8,6 millj. kr vegna endurnýjunar á löndunarkrana við Dalvíkurhöfn.

Texti: dalvikurbyggd.is