dalvíkurbyggð

Breytt aldurstakmark á tjaldsvæðunum á Dalvík í Fiskidagsvikunni

Fréttatilkynning frá Fiskideginum mikla.

Það eru allir velkomnir á Fiskidaginn mikla, allir sem að fylgja okkar einföldu reglum og viðmiðum. Það er sorglegt  að í okkar þjóðfélagi eru örfáir svarti sauðir eins og sumir kjósa að kalla þá sem að skemma fyrir hinum. Það eru fréttir af tjaldsvæðum hérlendis sem hafa lokað fyrir fullt og allt eingöngu vegna hópa sem kunna ekki að hegða sér, ganga illa um og þekkja ekki né kunna almennar umgengisreglur eða kurteisi.

Fiskidagurinn mikli er fjölskylduhátíð, nú leggjum við af stað í 19. sinn, allir sem vilja njóta samvista með fjölskyldunni og þeir sem að virða okkar ljúfu og einföldu Fiskidagsboðorð eiga nú þegar miða og eru velkomir.

Á Fiskideginum mikla er ekki pláss fyrir fíkniefni, fíkniefnasölumenn, né þá sem að koma með annarlegar hugsanir. Í ár verður gæsla aukin, fíkniefnahundar verða á staðnum, harðar verður tekið á slæmri umgengni. Við segjum einfaldlega við þann litla hóp sem kemur undir öðrum formerkjum… ekki vera FÁVITAR og skemma veisluna fyrir þeim sem hafa lagt mikla vinnu á sig og öllum gestunum sem hingað koma til að njóta alls þess sem í boði er.

Foreldrar verum VAKANDI – Leyfum ekki ólögráða börnum og unglingum að mæta einum á Fiskidaginn mikla. Við leggjum mikla áherslu á að Fiskidagurinn mikli sé FJÖLSKYLDUHÁTÍÐ og að fjölskyldan komi og njóti saman þess sem við bjóðum uppá. Það er með sorg í hjarta að við þurfum að grípa til þess ráðs að setja 20 ára aldurstakmark til að mega gista á tjaldstæðunum. Í fyrra var mikil aukning gesta  almennt og um leið jókst hópur þeirra sem að flestir sem halda slíka hátíð vilja síður fá.

Í samvinnu við tjaldstæðagæslu, lögregluna og viðbragðsaðila viljum við bregðast við eftir okkar bestu getu, með aukinni gæslu, fræðslu, ábendingum til foreldra, og breytingum á aldri þeirra sem mega tjalda og fleiru. UMFRAM allt viljum við reyna að höfða til allra gesta að virða okkar einföldu reglur og bera virðingu fyrir því að hér bjóða íbúar byggðarlagsins til ókeypis veislu. Gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða leggur nótt við dag við undirbúning og að sýna gestum okkar bestu hliðar og gestrisni.

FISKIDAGSBOÐORÐIN
Göngum vel um.
Virðum hvíldartímann.
Virðum náungann og umhverfið.
Verjum Fiskdeginum mikla saman.
Virðum hvert annað og eigur annarra.
Virðum útivistarreglur unglinga og barna.
Verum dugleg að knúsa.
Beygjum okkur eftir rusli.
Förum hóflega með áfengi og virðum landslög.

Hjálpumst að við að halda Fiskidagsboðorðin.

Göngum hægt um gleðinnar dyr og sýnum umhyggju í verki. Það hafa allir efni á aðgöngumiðanum á Fiskidaginn mikla sem kostar aðeins: virðingu, að ganga vel um eigur sínar og annara, knús og að elska friðinn og njóta. EKKI ÓGILDA MIÐANN.

Fyrir hönd stjórnar Fiskidagsin mikla  – Júlíus Júlíusson framkvæmdarstjóri.

 

Texti: fiskidagurinnmikli.is