Dalvík/Reynir tapaði í lokaumferðinni
Dalvík/Reynir heimsótti Víði í Garði í lokaumferðinni í 2. deild karla sem leikin var í gær. Erfiðlega hefur gengið að sækja stig í síðustu leikjum og voru leikmenn staðráðnir í að enda tímabilið á jákvæðum nótum.
Víðir byrjaði leikinn vel og skoraði Helgi Þór Jónsson strax á 7. mínútu leiksins. D/R tókst ekki að skora í fyrri hálfleik og var staðan því 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik.
Í upphafi síðari hálfleiks fékk Víðir dæmda vítaspyrnu og úr henni skoraði Helgi Þór Jónsson, hans annað mark leiknum og staðan 2-0 eftir 50. mínútur.
Á 60. mínútu gerði þjálfari D/R þrefalda skiptingu og sendi hann Viktor Daða, Rúnar Helga og Kristinn Þór inná fyrir þá Steinar Loga, Pálma Heiðmann og Kelvin sem var á gulu spjaldi. Aðeins nokkrum mínútum eftir þessar skiptingar fengu D/R dæma vítaspyrnu og úr henni skoraði Borja Laguna, hans 9. mark í 19 leikjum í deild og bikar í sumar. Staðan orðin 2-1 þegar tæpur hálftími var eftir.
Dalvík gerði fleiri skiptingar og setti Núma Kára inná fyrir Alexander Inga á 69. mínútu og Gunnlaug Bjarnar inná fyrir Jón Björgvin á 80. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og þurfti D/R að sætta sig við tap í lokaleik umferðarinnar. Liðið endaði í 8. sæti í deildinni, en hefði með sigri í þessum leik endaði í 5. sæti.
Borja Laguna var markahæsti leikmaður D/R í sumar með 6 mörk, Jóhann Örn með 5 og Sveinn Margeir með 4. Dalvík fékk aðeins 2 stig úr síðustu 5 leikjum liðsins í deildinni.