dalvíkurbyggð

Dalvík/Reynir tók á móti Vestra

Dalvík/Reynir og Vestri mættust á Dalvíkurvelli í gær í 2. deild karla í knattspyrnu. Um var að ræða leik í 19. umferð Íslandsmótsins. Vestri var í efsta sætinu fyrir leikinn og Dalvík/Reynir í 6. sæti. Liðin voru búin að skora jafn mörg mörk fyrir þennan leik og bæði lið höfðu tapað 6 leikjum, Vestri voru þó búnir að fá á sig aðeins 21 mark í deildinni og vinna 12 leiki af 18.

Leikurinn byrjaði fjörlega og Pétur Bjarnason skoraði fyrir Vestra strax á 7. mínútu. Viktor Daði svaraði fyrir D/R á 21. mínútu og jafnaði leikinn í 1-1, og þannig var staðan í hálfleik.

Aftur skoraði Pétur Bjarnason fyrir Vestra eftir 7 mínútur í síðari hálfleiks og kom gestunum í 1-2. D/R gerðu hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn og kom Pálmi Heiðmann og Númi Kárason inná fyrir Jiminez og Gunnlaug. Undir lok leiksins gerði þjálfari D/R aðra skiptingu þegar Rúnar Helgi og Ottó Björn komu inná fyrir Steinar Loga og Viktor Daða. Á 86. mínútu fékk Atli Fannar rautt spjald og léku heimamenn því einum færri síðustu mínútur leiksins.

Vestri sigraði leikinn 1-2 og eru áfram efstir í deildinni og D/R er í 6. sætinu og er nú þremur stigum frá Þrótti Vogum sem eru í 5. sætinu og með einu stigi meira með ÍR sem er í 7. sæti.

D/R á núna þrjá leiki eftir í deildinni og er næsti leikur gegn Fjarðabyggð á útivelli, svo gegn ÍR á Dalvíkurvelli og í lokaumferðinni gegn Víði í Garði.