Dalvík/Reynir vann Víði í undanúrslitum Lengjubikars
Í gær spilaði Dalvík/Reynir gegn Víði Garði í undanúrslitum B-deildar Lengjubikarsins. Leikurinn fór fram á Sauðárkróksvelli á nýju gervigrasi. Dalvík gerði fyrsta mark leiksins á 37. mínútu þegar Númi Kárason skoraði eftir góða sókn. Staðan í hálfleik var 1-0.
Í upphafi síðari hálfleiks þá jafna Víðismenn leikinn en markið er skráð sjálfsmark í leikskýrslu KSÍ. Á 65. mínútu fékk Dalvík/Reynir vítaspyrnu eftir að brotið var á Núma, spyrnuna tók Borja López Laguna og skoraði örugglega, staðan 2-1.
Á 73. mínútu skoraði Númi aftur og kom Dalvík/Reyni í 3-1 þegar skammt var eftir af leiknum.
Á fjórðu mínútu uppbótartíma þá minnkaði Víðir muninn í 3-2, en lengra náðu þeir ekki og vann Dalvík/Reynir góðan sigur og leika til úrslita á móti Selfossi.