dalvíkurbyggð

Dalvík sigraði Tindastól örugglega

Dalvík/Reynir mætti Tindastóli í gær á Dalvíkurvelli í 5. umferð Íslandsmótsins í 3. deild karla í knattspyrnu. Stólarnir  voru neðstir í deildinni með 1 stig fyrir þennan leik og sárvantaði sigur. Dalvík gat með sigri komist nær toppbaráttunni. Liðin mættust síðast í 2. deildinni árið 2019 og vann þá Dalvík/Reynir báða leikina.

Fyrsta mark leiksins kom á 42. mínútu þegar Jón Heiðar Magnússon skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir Dalvík, en hann er á sínu sjöunda tímabili með liðinu. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Annað markið kom svo á 51. mínútu þegar Gunnar Örvar Stefánsson skoraði fyrir Dalvík, staðan orðin 2-0.

Stólarnir gerðu tvöfalda skiptingu fljótlega eftir markið og enn eina skömmu síðar.

Þriðja mark heimamanna kom svo í uppbótartíma þegar Kristinn Freyr Óðinsson skoraði sitt fyrsta mark í deildinni síðan 2017 fyrir félagið.

Lokastaðan 3-0 og frábær sigur hjá Dalvík/Reyni. Liðið er núna í 4. sæti eftir 5 leiki en nokkur lið eiga inni leiki.