Dalvík úr leik í Mjólkurbikarnum
Dalvík/Reynir tók á móti Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar í dag á Dalvíkurvelli í 1. umferð Mjólkurbikarsins. Búist var við jöfnum leik enda hafa þessir nágrannaleikir liðanna verið fjörugir síðustu árin og aldrei neitt gefið eftir.
Áki Sölvason kom Dalvík/Reyni yfir strax á 16. mínútu og staðan orðin 1-0. Gestirnir jöfnuðu leikinn skömmu síðar með marki frá Sævari Gylfasyni og var staðan aftur orðin jöfn 1-1. Jafnt var í hálfleik 1-1 og átti eftir að vera dramatík í síðarihálfleik.
Á 80. mínútu fékk Rúnar Þórhallsson sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt og lék Dalvík/Reynir því einum færri eftir það. Í uppbótartíma skoraði Kristófer Andri Ólafsson fyrir KF og tryggði þeim dramatískan sigur í blálokin. Lokatölur 1-2 og KF mætir Magna í næstu umferð.