Dalvík vann Tindastól
Dalvík/Reynir og Tindastóll mættust í 2. deild karla í knattspyrnu á Sauðárkróksvelli í gær. Stólarnir höfðu tapað fyrstu þremur leikjunum á meðan D/R hafði gert tvö jafntefli og tapað einum leik.
Það var hart barist í leiknum eins og oft áður þegar svona nágrannalið á Norðurlandi mætast. Á 31. mínútu misstu Stólarnir leikmann af velli sem fékk beint rautt spjald frá dómara leiksins, og léku þeir einum færri það sem eftir lifði leiks. Það tók hins vegar Dalvíkinga talsverðan tíma að brjóta niður varnarmúr heimamanna. Staðan var 0-0 í hálfleik en þegar líða tók á síðari hálfleik fóru hlutirnir að gerast. D/R skoraði fyrsta mark leiksins á 73. mínútu og var það Joan De Lorenzo Jimenez sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið, staðan orðin 0-1. Tæpum tíu mínútum síðar fengu Stólarnir vítaspyrnu og úr henni skoraði Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson og jafnaði leikinn, 1-1 þegar skammt var eftir. Aðeins nokkrum mínútum síðar komst D/R aftur yfir með marki frá Jóhanni Erni Sigurjónssyni, staðan 1-2 og þrjár mínútur auk uppbótartíma eftir. D/R gerði tvær skiptingar á lokamínútum og tíminn rann út fyrir Stólana. Lokatölur 1-2 og fyrsti sigur Dalvíkur/Reynis í deildinni í ár.