Dalvíkurbyggð
Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð varð til árið 1998 þegar þrjú sveitarfélög við utanverðan Eyjafjörð; Dalvíkurbær, Svarfaðardalshreppur og Árskógshreppur sameinuðust undir einum hatti. Merki Dalvíkurbyggðar er mynd af þrem fjöllum sem tákna uppruna sveitarfélagsins.
Á Dalvík búa um 1500 manns. Sjávarútvegur, fiskvinnsla og aðrar atvinnugreinar tengdar sjávarnytjum skipa öndvegissess en einnig eru hér öflug iðnaðarfyrirtæki og matvælafyrirtæki sem skapa fjölda fólks atvinnu. Þá hafa margir atvinnu af ýmis konar þjónustu, viðskiptum og verslun. Dalvíkurhöfn er stór og umsvifamikil fiski- og vöruhöfn. Þaðan siglir Grímseyjarferjan Sæfari og heldur Grímsey, nyrstu byggð Íslands, í tengslum við fastalandið.
Á Árskógsströnd standa þorpin Hauganes og Árskógssandur. Í hvoru um sig búa innan við 200 manns. Þar snýst lífið öðru fremur um fiskveiðar og fiskvinnslu. Á Árskógssandi er ferjuhöfn fyrir Hríseyjarferjuna Sævar sem flytur varning og fólk til og frá Hrísey, “Perlu Eyjafjarðar”.
Mjólkurframleiðsla er helsta lífsviðurværi bændanna í Svarfaðardal og á Árskógsströnd en sauðfjárrækt hefur dregist saman. Hestamennska er hér bæði stunduð meðal bænda og bæjarbúa en einnig eru hér hænsnabú, loðdýrabú og fleiri búgreinar þó í smærri stíl sé.
Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein í sveitarfélaginu og hér hafa verið að byggjast upp öflug fyrirtæki á því sviði.