Byggðasafnið Hvoll
Byggðasafnið á Dalvík er staðsett í Hvoli við Karlsrauðatorg og er fræðandi og skemmtilegt safn. Munir byggðasafnsins eru flestir komnir af heimilum í Svarfaðardal, á Dalvík og Árskógsströnd. Þeir gefa innsýn í daglegt líf og störf íbúa á svæðinu á fyrri tíð og þróun verkmenningar og mannlífs.
Hefðbundið minjasafn
Munir safnsins eru flestir af heimilum á Dalvík, Svarfaðardal og nærliggjandi byggðum. Þarna eru ýmis áhöld og innanstokksmunir frá fyrri tíð sem að vitna um þróun verkmenningar á Dalvík og nágrenni og sögu byggðarinnar. Einning eru hér haganlega gerðir skrautmunir af ýmsum toga unnir af hagleiksfólki á svæðinu.
Náttúrugripasafn
Í fuglaherbergi safnsins eru yfir 100 tegundir uppstoppaðra fugla. Nú nýlega hefur þessi hluti safnsins verið gerður upp. Stórt kort af Friðlandi svarfdæla hangir á vegg og þar má sjá hvaða fuglar verpa þar og /eða hafa viðkomu á svæðinu. Ísbjörnin vekur alltaf ánægju gesta, eins refirnir og hin dýrin. Hér er líka grasasafn, skeljasafn, eggja – og steinasafn.
Mannasafn
Tveir þjóðþekktir svarfdælingar eiga sínar stofur á safninu. Þar ber að nefna Jóhann Svarfdæling sem eitt sinn var hæsti maður heims. Hann hefur nú fengið meira rými á safninu og lögð er áhersla á að kynna manninn Jóhann en ekki einungis risann. Í stofum Jóhanns er hægt að tylla sér niður og horfa á heimildamynd um hann eða skoða hvernig myndir hann tók sjálfur. Þarna er hægt að máta eftirlíkingar af skóm Jóhanns sem eru nr. 62 og kaupa eftirlíkingu af hring hans.
Kristjánsstofa Eldjárns var endurgerð og opnuð vorið 2005. Fjölskylda Kristjánsgaf safninu marga persónulega muni hans við þetta tækifæri. Kristján var fæddur að Tjörn í Svarfaðardal. Hann var fornleifafræðingur að mennt og hann stóð fyrir mörgum merkum fornleifarannsóknum í Svarfaðardal. Hann var kosinn forseti Íslands árið 1968.
Aðrir merkismenn byggðalagsins eiga sér sérskot á safninu svo sem Friðrik Friðriksson stofnandi KFUM á Íslandi.
Jarðskjálftasýning
2. júní 2004 opnaði jarðskjálftasýning á safninu. Sýningin byggir á minningum fólks sem upplifði skjálftann fyrir 70 árum. Hún byggir á textum og ljósmyndum og má líta á sýninguna sem innsetningu í rými.
Sumaropnun:
Opið alla daga
9. júní – 18. ágúst kl. 11:00 – 18:00