Dalvíkurskjálftinn

Jarðskjálftinn mikli 1934

Þann 2. júní 1934 er án efa einn örlagaþrungnasti dagur í sögu Dalvíkur. Þá reið mjög harður jarðskjálfti (6,2 stig á Richter) yfir Norðurland. Langharðast kom hann niður á Dalvík og nærsveitum enda æ síðan nefndur Dalvíkurskjálftinn. Skjálftinn jafnaði fjölmörg hús við jörðu og olli skemmdum á nær öllum mannvirkjum á svæðinu. Þrátt fyrir gríðarlega eyðileggingu varð ekki manntjón og allir sluppu óskaddaðir úr hildarleiknum. Stór hluti Dalvíkinga mátti láta fyrirberast í tjöldum og bráðabirgðaskýlum lengi sumars á meðan lagfæringar stóðu yfir. Eftir skjálftann hófst mikið endurreisnarstarf og var fjöldi rammgerðra steinhúsa byggður á Dalvík og nágrenni næstu árin sem leystu af hólmi meira eða minna laskaða torfbæi.