Skagafjörður

Endurhæfingarrými á HSN Sauðárkróki

Ákveðið hefur verið að opna tvö endurhæfingarrými á HSN Sauðárkróki frá 1. mars n.k. og áætlað að fjölga þeim í fjögur næsta vetur. Unnið hefur verið að þessu verkefni í samvinnu Kristsnesspítala – endurhæfingardeildar SAk, og HSN og hlaut það stuðning heilbrigðisráðherra.

Um er að ræða rými fyrir eldri einstaklinga þar sem slitgigt er aðalvandamálið og ekki er þörf á sérhæfðri endurhæfingu. Þessi hópur hefur ekki komist á forgangslista hjá Kristsnesspítala og því áformað að nýta góða endurhæfingaraðstöðu á Sauðárkróki til að koma til móts við hann.

Gert er ráð fyrir að taka við tilvísunum frá öllum starfsstöðvum HSN og að þær verði eins og áður sendar Kristsnesspítala þar sem þær verða metnar.

Áætlað er að tveir en síðan fjórir einstaklingar verði í endurhæfingu þrjár vikur í senn fimm daga vikunnar en fari að öllu jöfnu heim um helgar. Starfsemin verður átta mánuði á ári, september til desember og janúar til maí.