Fjallabyggð

Endurmeta rýmingu á Siglufirði í dag

Staðan á rýmingum á Siglufirði verður endurmetin nú þegar birtir af degi, en veðurspár gera ráð fyrir meiri úrkomu eftir hádegi og enn verra veðri á morgun laugardag.

Vegna snjósöfnunar, veikra snjóalaga og veðurspár framundan var ákveðið að rýma nokkur hús undir Strengsgiljum á Siglufirði á miðvikudag vegna snjóflóðahættu. Húsin sem rýmd voru eru undir varnargarðinum Stóra-Bola sem reistur var 1998-99. Síðan þá hafa mörg snjóflóð fallið á hann og garðurinn hefur bægt þeim frá byggðinni. Í janúar í fyrra féllu mjög stór snjóflóð á varnargarða ofan Flateyri og fóru að hluta til yfir þá. Eftir það hefur verið unnið að endurskoðun á virkni leiðigarða á fleiri stöðum. Fyrstu niðurstöður fyrir Stóra-Bola undir Strengsgiljum gefa til kynna að ef mjög stór flóð falla á garðinn geti gefið yfir hann. Rýmingin nú er því varúðarráðstöfun sem tekur mið af bráðabirgðarýmingarkorti. Þess má geta að ávallt hefur verið gert ráð fyrir rýmingu undir varnargörðum við allra verstu aðstæður.

Spáð er áframhaldandi norðan- og norðaustanáttum með skafrenningi og éljagangi fram yfir helgi og því má búast við því að snjóflóðahætta verði viðvarandi næstu daga.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.