Fallist var allar kröfur Samherja hf. í breskum dómi
Í dag var kveðinn upp dómur í Bretlandi í máli sem Samherji hf. höfðaði vegna brota á vörumerkjaréttindum félagsins. Fallist var allar kröfur Samherja hf.
Um er að ræða mál gegn Oddi Eysteini Friðrikssyni sem á síðasta ári setti upp heimasíðu í nafni Samherja með breskri lénaskráningu þar sem hann villti á sér heimildir og notfærði sér hugverk í eigu félagsins. Var umrædd síða látin líta út fyrir að vera raunveruleg vefsíða í eigu Samherja. Þá dreifði hann fölskum tilkynningum í nafni félagsins. Með dómi sem kveðinn var upp í morgun kemur fram að Oddi Eysteini hafi verið þetta óheimilt og var málsástæðum hans um listrænan gjörning hafnað.
Í dómsforsendum er því slegið föstu að notkun vörumerkis Samherja við hönnun vefsíðunnar hafi verið gerð í því skyni að ljá vefsíðunni trúverðugleika en ekki í þeim tilgangi að varpa fram gagnrýni. Notkun vörumerkis og öll framsetning vefsíðunnar hafi verið eins og um væri að ræða opinbera vefsíðu félagsins. Þannig hafi hönnun síðunnar hvorki falið í sér listræna skopstælingu né skrumskælingu sem rúmast innan þess tjáningarfrelsis sem listamenn njóta.
Það er niðurstaða dómarans að uppsetning vefsíðunnar á léni með nafni félagsins, og vísvitandi framsetning rangra upplýsinga þar inni, hafi falið í sér ásetning um blekkingar. Þá er ekki fallist á að framangreint feli í sér ólögmætar skerðingar á tjáningarfrelsi enda geti tjáningarfrelsi sætt takmörkunum vegna lögbundinna réttinda annarra og þar undir falla vörumerkja- og hugverkaréttindi.
Frá þessu var greint á vef Samherja.