dalvíkurbyggð

Fimm mörk og fjögur rauð á Dalvíkurvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Dalvík/Reyni í dag í 2. umferð Mjólkurbikarsins, en leikið var á Dalvíkurvelli. KF mætti með sterkt lið í leikinn og nýja leikmenn en Dalvík hafði einnig bætt við sig erlendum leikmanni sem var nýkominn frá Bretlandi.

KF lét Bandaríkjamanninn beint í byrjunarliðið en hann er nýlega kominn til liðsins. Þá er Sachem kominn til landsins en hann byrjaði á bekknum, en Diouck var í byrjunarliðinu. Dalvík var með nýjan vængmann beint frá Bretlandi og var hann einnig í  byrjunarliðinu. Alls máttu 200 áhorfendur vera á leiknum og var skipt í tvö hólf.  Stuðningsmenn Dalvíkur voru í stúkunni, en stuðningsmenn KF á grasbalanum.

KF stillti upp sterku byrjunarliði en bekkurinn var einnig óvenju sterkur, en þar voru m.a. Sachem og Grétar Áki. Hjá Dalvík byrjuðu Númi Kára, Jóhann Örn og Viktor Daði allir á bekknum.

Það eru vanalega læti og mörk þegar þessi lið mætast og þessi nágrannaleikur var ekkert öðruvísi en síðustu árin. Hákon Leó bakvörður KF lét strax vita af sér á 4. mínútu og náði í gult spjald og tveir leikmenn D/R náðu sér einnig í gula spjaldið í fyrri hálfleik.  Markalaust var í hálfleik en síðari hálfleikur var fjörugri. Atli Snær leikmaður KF fékk beint rautt spjald þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum og lék KF einum manni færri. Það var samt KF sem tók forystuna í leiknum þegar Oumar Diouck skoraði gott mark og var staðan 0-1 og aðeins nokkrar mínútur auk uppbótartíma eftir af leiknum. Dalvík/Reynir settu allt í sóknina og gerðu hvað þeir gátu til að jafna leikinn, og gerði þjálfarinn þrjár skiptingar og á síðustu mínútu uppbótartíma kom jöfnunarmarkið og staðan orðin 1-1, en það var varamaðurinn Númi Kárason sem markið gerði. Leikurinn fór því í framlengingu og þar var einnig mikið fjör.

Dalvík missti leikmann út af strax í upphafi framlengingar og því var aftur orðið jafnt í liðum. KF komst í 1-2 þegar um 10 mínútur voru búnar af framlengingunni, en það var Sachem sem skoraði, en hann hafði komið inná sem varamaður. Dalvík fékk svo annað rautt rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks framlengingarinnar, voru þeir því orðnir 9 á móti 10 leikmönnum KF. Gestirnir úr Fjallabyggð nýttu sér liðsmuninn og komust í 1-3 í upphafi síðari hálfleiks framlengingarinnar þegar Diouck skoraði aftur.

Dalvíkingar settu allt aftur í sóknina og náðu að minnka muninn úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikslok og staðan orðin 2-3 þegar skammt var eftir og mikil spenna í leiknum síðustu mínúturnar. Steinar Logi fyrirliði Dalvíkur skoraði markið. Þorsteinn Már Þorvaldsson leikmaður KF fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 117. mínútu, og var því jafnt aftur í liðum síðustu mínútur leiksins.

Lokatölur urðu 2-3 í þessum fjöruga leik og KF er komið í 3. umferð Mjólkurbikarsins.