dalvíkurbyggð

Fjörur hreinsaðar og ruslið til sýnis á Fiskideginum mikla

Arctic Adventures í samvinnu við góða aðila munu taka þátt í dagskránni í ár á Fiskideginum mikla með hreinsun á fjörum við utanverðan Eyjafjörð. Arctic Adventures mun útvega báta og búnað til að fara upp í fjörur og hreinsa þar til. Áætlað er að fara í þessa hreinsun fimmtudaginn 8. ágúst.

Ruslið og það sem finnst við strendurnar mun verða til sýnis á laugardeginum eða sjálfum Fiskideginum Mikla til að vekja fólk til umhugsunar og til að sýna hvað það er sem finnst í fjörutiltekt. Mikil vakning hefur orðið fyrir mikilvægi þess að hreinsa hafið og strandlengjur landsins.

Við utanverðan Eyjafjörð eru margar fjörur illfærar og þar mun verkefnið að mestu fara fram. Verkefnið verður unnið með þátttöku gesta og heimamanna og er öllum velkomið að taka þátt. Það verður spennandi að sjá þetta verkefni blómstra.

Fiskidagurinn mikli býður Arctic Adventures velkomið í hóp aðalstyrktaraðila Fiskidagsins mikla, frábært að það sé að gerast nú á 10 ára afmæli Arctic Seatours hvalaskoðunar á Dalvík. Það verða ýmsir samstarfsaðilar í þessu verkefni m.a. Samál sem mun endurvinna allt ál sem finnst og Gámþjónusta norðurlands sem flokkar og vinnur úr ruslinu.