Framlög vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða áætluð 19,5 milljónir til Dalvíkurbyggðar
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafanefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um áætlaða úthlutun framlaga til þeirra sveitarfélaga sem bjóða nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum á árinu 2025 sbr. lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt áætluninni er heildarfjármagn til ráðstöfunar 3,75 ma.kr. á árinu 2025.
Framlag til Dalvíkurbyggðar er áætlað tæplega 19,5 milljónir. Framlag til Fjallabyggðar er rúmlega 17,5 milljónir. Hjá Akureyrarbæ eru skólabörn 2595 og er áætlað framlag 203, 7 milljónir.
Framlagið skiptist hlutfallslega á milli sveitarfélaga eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar 2024 skv. tölum Hagstofunnar og greiðist mánaðarlega til sveitarfélaga að undanskildum júlímánuði, auk þess sem úthlutun framlagsins í ágústmánuði tekur mið af því að skólaárið hefst um miðjan mánuðinn. Áætlunin verður uppfærð í ágúst nk. miðað við fjölda grunnskólabarna 1. janúar 2025.